Fókus í úrslit Músiktilrauna

Fyrir nokkru sögðum við frá því að stúlknabandið Fókus ætlaði að taka þátt í Músiktilraunum en þar hefur fjöldi hljómsveita komið fram fjögur síðustu kvöld í undankeppninni. Hvert kvöld hefur salurinn valið eina hljómsveit áfram og dómnefnd aðra. Það var þó vitað að síðasta kvöldið myndi dómnefnd hugsanlega bæta fleiri hljómsveitum við.

Og í gær varð ljóst hvaða hljómsveitir halda áfram í úrslitin. Þegar dómnefnd bætti við atriðum í úrslitakeppnina var Fókus þar á meðal. Frábært og til hamingju stelpur. Hljómsveitin þarf því að bruna aftur í höfuðborgina og mun taka þátt í úrslitunum sem haldin verða n.k. laugardag, 1. apríl í Hörpu kl.17:00. Hægt er að kaupa miða á tix.is.

Söngkeppni framhaldsskólanna fer einnig fram næsta laugardag og þar á FAS fulltrúa. Það verður því nóg að gera að fylgjast með okkar fólki næsta laugardag. Við óskum öllum góðs gengis og áfram FAS!!

 

Isabella Tigist í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin laugardaginn 1. apríl í Hinu húsinu í Reykjavík. Allir framhaldsskólar landsins geta sent einn keppenda fyrir sína hönd. FAS hefur oft tekið þátt í söngkeppninni og svo er einnig nú. Það er hún Isabella Tigist sem verður okkar fulltrúi að þessu sinni. Hún ætlar að flytja lagið „All the pretty girls“ sem hljómsveitin Kaleo samdi fyrir nokkrum árum. Að þessu sinni eiga 28 skólar fulltrúa í keppninni.

Keppnin á laugardaginn hefst klukkan 19 og um leið hefst símakosning. Við hvetjum alla til að fylgjast með keppninni en henni verður streymt á Stöð2/Vísi. Við vitum ekki enn hvaða símanúmer Isabella Tigist fær en við munum að sjálfsögðu uppfæra fréttina þegar þær upplýsingar liggja fyrir. Isabella Tigist er að vonum spennt að taka þátt og auðvitað óskum við henni góðs gengis.

Vetrarferð fjallamennskunemenda

Fjallamennskunemendur FAS fóru í vetrarferð 24. – 28. febrúar og 9. – 13. mars en hópnum var skipt í tvennt. Örlítil áherslubreyting hefur orðið á áfanganum síðan hann var kenndur síðast en meginmarkmið hans nú er að undirbúa nemendur til að hugsa um sig sjálf í vetraraðstæðum, rötun og kynning á grunn-tækniatriðum svo sem snjóakkerum, ísaxarbremsu, hvernig má komast framhjá hnút hangandi í línu og að ganga í línu til að varna falli í sprungu. Ferðirnar voru skipulagðar út frá fjalllendi nálægt höfuðborginni og fyrri ferðin var haldin þar. Seinni ferðin var færð norður á Tröllaskaga þar sem betri aðstæður voru til að kenna áfangann þennan veturinn.  Ferðirnar voru því nokkuð ólíkar en nemendur beggja ferða fengu að takast á við að halda á sér hita með réttum klæðaburði og góðum gönguhraða, prófa búnaðinn sinn og læra ný tæknileg atriði og línuvinnu.  

Fyrri hópurinn mætti til Reykjavíkur þar sem farið var á Hengil og í Bláfjöll. Veðrið var með hinu versta móti en lægðarbylgjur komu hver á eftir annarri yfir landið. Þrátt fyrir vonskuveður náðu nemendurnir að nýta skilin milli skúra og æfa réttu handtökin í vetrarfjallamennsku. Afnot fékkst af húsnæði FBSR til að læra og æfa tæknilega kunnáttu í línuvinnu. Þar æfðu þau sig m.a. í að binda sig og félaga sína inn í línu og að komast yfir hnút á línunni í þeim ímynduðu aðstæðum að þau hefðu sjálf fallið ofan í sprungu og þyrftu að komast upp úr henni. Tjaldbúðir voru settar upp í Drottningargili Bláfjalla þegar leið undir lok ferðar en þar gafst nemendum færi á kynnast hvernig lífið getur verið í alvöru vosbúð og hversu mikilvægt það getur verið að halda hlutunum þurrum. Heilt yfir gekk áfanginn vel og náðust flest námsmarkmiðin. 

Seinni hópurinn mætti á Dalvík og fékk að nýta sér aðstöðu 600 Klifurs á Hjalteyri þar sem þau æfðu sömu línuvinnu og fyrri hópurinn. Daginn eftir var haldið á Heljardalsheiði upp úr Svarfaðardal þar sem hópurinn tjaldaði við Heljuskála í tvær nætur. Mjög kalt var um þessa helgi á landinu öllu og fór frostið niður í um 20 stig þar sem hópurinn hafði tjaldbúðir. Þessi mikli kuldi var ástæða þess að ákveðið var að tjalda við skálann svo hægt væri að nýta hann sem öryggisnet fyrir nemendur. Eftir þrjá daga á fjöllum hélt hópurinn heim eftir að hafa æft hin ýmsu atriði og fínpússað kerfin sín t.d. til að halda á sér hita á nóttunni og bræða snjó til eldamennsku og drykkjarvatns. Hópurinn stóð sig með eindæmum vel og tókst á við áskorunina sem kuldinn veitti þessa vikuna.  

Leiðbeinendur í vetrarferðunum voru; Ívar F. Finnbogason, Michael Walker, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson. Höfundar greinar; Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson. 

Frumsýning á föstudag

Í byrjun annar sögðum við frá því að FAS væri í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar vegna uppsetningar á fjölskylduleikritinu Galdrakarlinum í Oz eftir L. Frank Baum. Fjölmargir aðstoða leikfélagið við uppsetninguna en auk nemenda í FAS eru nokkrir nemendur úr grunnskólanum sem fara með hlutverk. Í heildina koma nokkrir tugir að uppsetningunni.

Undanfarnar vikur hafa verið stífar æfingar og næsta föstudag, 24. mars verður leikritið frumsýnt í Mánagarði. Sýningin á föstudag hefst hefst klukkan 19 og það er orðið uppselt á hana. Önnur sýning verður laugardaginn 25. mars og hefst hún klukkan 17. Þar er enn hægt á fá miða. Það eru tvær sýningar fyrirhugaðar sunnudaginn 26. mars, sú fyrri er klukkan 13 og sú seinni klukkan 17. Hægt er að panta miða í síma 691 67 50 eða 892 93 54 á milli 17 og 20.

Við hvetjum alla til að drífa sig í leikhús og sjá skemmtilega uppfærslu. Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingum síðustu daga.

Menntun og öryggi leiðsögumanna á norðurslóðum

Barbara Olga Hild vinnur að PhD verkefni sínu sem ber heitið “Arctic Guide Education and Safety”. Í verkefninu leiðir hún saman þrjá skóla sem kenna leiðsögn á norðurslóðum. Fjallamennskunám FAS er íslenski þátttakandinn í verkefninu ásamt menntaskólanum Campus Kujalleq á Suður-Grænlandi og Norges Arktiske Universitet í Tromsö og á Svalbarða. Dagana 15. – 17. febrúar hittum við kennararnir í fjallamennskunáminu í FAS, Barböru og hina þátttakendurna frá Noregi og Grænlandi ásamt Gunnari Jóhannessyni prófessor við Ferðamálafræðideild HÍ, á fundi í Reykjavík.  

Verkefnið er virkilega spennandi og á vel við starfið okkar í fjallamennskudeild FAS. Strax á fyrsta fundi mátti sjá marga sameiginlega snertifleti með skólunum á Grænlandi og á Svalbarða. Við heimsóttum ferðaþjónustufyrirtæki og fengum kynningu frá þeim hvernig staðið er að öryggis- og menntunarmálum. Eins var haldin vinnustofa með hagsmunaaðilum úr ferðaþjónustunni þar sem fóru fram líflegar umræður.  

Næsta skref verkefnisins er fundur á Svalbarða í lok maí. Þangað höldum við fjögur frá FAS en ásamt fundasetu tökum við þátt í 5 daga gönguskíðaleiðangri á Spitsbergen jöklinum. Leiðangurinn er lokaferð útskriftarnema í Arctic Nature Guide náminu en nemendurnir bjóða allir 1-2 vinum eða fjölskyldumeðlimum í leiðangurinn en nemendurnir eru leiðsögumenn ferðarinnar. Við kennararnir í fjallamennskunáminu fáum því að vera “viðskiptavinir” í ferðinni. Það verður virkilega spennandi og lærdómsríkt að koma til Svalbarða og sjá hvernig kennslan er útfærð þar. Í framhaldinu verður síðasti fundur verkefnisins haldinn á Grænlandi.  

Við vonum að verkefnið leiði að sér einhvers konar samstarf skólanna þriggja enda eigum við margt sameiginlegt með þeim. Verkefnið fór vel af stað og við hlökkum til næstu skrefa.  

Íris Ragnarsdóttir Pedersen 

 

Fókus í Músiktilraunum

Í síðustu viku sögðum við frá stúlknabandinu Fókus sem spilaði m.a. á Nýtorgi þegar menningarverðlaun sveitarfélagsins voru afhent og eins á Blúshátíð um síðustu helgi.

Nú er komið í ljós að hljómsveitin tekur þátt í Músiktilraunum og mun spila laugardaginn 25. mars í Hörpu. Hljómsveitin hefur æft stíft undanfarið og flytur bæði frumsamin lög og ábreiður. Núna eru frumsömdu lögin þeirra komin á netið og hægt er að hlusta á þau hér. 

Undankvöldin í Músiktilraunum að þessu sinni eru fjögur þar sem um það bil 40 hljómsveitir sækjast eftir því að komast í úrslit. Það verða 10 – 12 hljómsveitir sem komast í úrslit og úrslitakvöldið verður þann 1. apríl.

Okkur finnst frábært að hljómsveitin taki þátt í Músiktilraunum og það verður sannarlega gaman að fylgjast með. Þeir sem eru á höfðuborgarsvæðinu geta farið í Hörpu til að hlusta á bandið. Gert er ráð fyrir að hljómsveitin spili um 19:30. Hægt er að kaupa miða á tix.is. Við óskum okkar konum góðs gengis.