Snjóflóðafræði og leiðsögn

18.feb.2024

Tíu nemendur í framhaldsnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 2.- 6. febrúar. Eins og á flestum námskeiðum FAS, stýrði veður för en engu að síður fékk hópurinn frábærar lærdómsaðstæður og komst á fjöll alla dagana. Að auki gafst öllum tækifæri til þess að fjallaskíða og sum prófuðu fjallaskíði (og skíði) í fyrsta skipti. Það eykur mikið möguleikana til lærdóms um snjóflóðafræðin að geta ferðast um fjöll á skíðum, en auðvitað líka ánægju.  

Fyrsti morguninn fór í upprifjun á námsefni, enda mislangt síðan nemendur fóru á grunnsnjóflóðanámskeið. Þegar útdeilingu og yfirferð á búnaði var lokið hélt hópurinn upp að Selhnjúk beint frá Dalvík. Snjógryfjur voru gerðar til athugunar á snjóalögum en eftir það fengu öll að skíða dúnmjúkan snjó í sólskini og var þetta frábær byrjun á námskeiðinu. 

Á degi tvö skipti hópurinn sér í tvennt. Eftir morgunfund, þar sem snjóflóða- og veðuraðstæður voru ræddar í þaula fór annar hópurinn á fjallaskíði í Héðinsfirði á meðan hinn hópurinn æfði skíðatækni á skíðasvæðinu á Dalvík og fór stutta fjallaskíðaferð frá lyftunum. Annar frábær dagur, sem endaði þó í lélegu skyggni fyrir seinni hópinn og skringilegu skíðafæri fyrir hinn hópinn.  

Þriðja degi var varið í Hlíðarfjalli. Spáin var ekki hliðholl fjallaskíðaferðum en hópurinn nýtti daginn vel og æfði snjóflóðaleitina í þaula í ýlagarði Hlíðarfjalls (Takk fyrir okkur!) og síðan utanbrautarskíðamennsku í lyftunum í Hlíðarfjalli þar sem snjóaði viðstöðulaust og færið var mjúkt og djúpt innan brauta. Auk þess var það frábær æfing að skíða í lélegu skyggni. Enn og aftur gerðum við það besta sem var í boði miðað við veðuraðstæður.  

Fjórði dagur bauð upp á tæpt skyggni og éljagang en þó ákváðum við að drífa okkur innst inn í Svarfaðardal þar sem spáði minni vindi en annars staðar og reyndist það rétt ákvörðun. Gengið var upp með Sandá í átt að Sandskálahnjúki og fengu nemendur almennilegt tækifæri til þess að æfa rötun í lélegu skyggni og leiða hópinn í gegnum hvítmyrkrið. Það gekk aldeilis vel en þegar komið var upp í um 800 m hæð var ákveðið að snúa við, þar sem skyggni batnaði um stundarkorn og ekkert víst að tækifærið komi aftur til niðurskíðunar í góðu ljósi. Og færið var með eindæmum einstakt! Síðasti spottinn niður að bíl var með skemmtilegri skíðun námskeiðsins, í flottu skyggni og 50 cm af púðursnjó. Þá njóta sín allir! 

Fimmti dagur námskeiðs og komin örlítil þreyta í hópinn, en þá var komið að stærsta deginum. Markmiðið var toppurinn á Grjótskálarhnjúki, austan Eyjafjarðar með 1200 m hækkun. Alvöru fjall. Nú var skyggnið gott en farið að hvessa töluvert í SV-áttum en það var góð ákvörðun að keyra alla þessa leið þar sem skyggnið var betra. Uppgangan gekk vel en á miðri leið fékk hópurinn tækifæri til þess að grafa gryfjur og gera stöðugleikaprófanir upp á eigin spýtur. Niðurstöður voru misjafnar og greinilega veik lög til staðar í snjóþekjunni en ákveðið var að halda áfram og nýta landslagið til þess að forðast snjóflóðahættu á uppleiðinni. Á útsýnispunkti skiptist hópurinn aftur í tvennt og sumir fóru niður sama gil í dúnmjúku færi en hinn helmingurinn hélt áfram upp á topp, í átt að Grýtuskál neðan Grjótskálarhnjúks. Veðrið skánaði ekki þegar ofar dróg en loks komst hópurinn á góðan stað til þess að skíða niður. Eftir smávegis bras og brölt kom hópurinn sér niður í skálina niður úr veðrinu og skíðaði endalausa púðurskál af góðum snjó sem virtist engan endi ætla að taka. Dagurinn endaði á Bautanum í börger og spjall um daginn, enda lærdómsríkur dagur að baki. 

Dagur 6 byrjaði snemma í morgunspjalli í Gimli og haldið var beint út á Karlsárfjall sem gnæfir tignarlegt yfir Dalvíkinni. Hópurinn náði hálfa leið upp fjallið, æfði sparkbeygjuna, tóku gryfju og ræddi málin. Leiðin niður var síðan enn ein púðurferðin í dásamlegu færi. Það verður að segjast að við vorum virkilega heppin með færi alla vikuna, en auðvitað spiluðum við líka rétt úr þeim spilum sem okkur voru rétt. 

Við kennararnir erum virkilega ánægð með námskeiðið og vonum að nemendur haldi heim með fullan poka af veganesti og innblástur til áframhaldandi fjallaskíðamennsku og snjóflóðaspeki. Það er auðvitað markmiðið, að smita þau af fjallaskíðabakteríunni, því að ef ég væri spurð, þá er varla til betri leið til þess að ferðast um fjöll í snjó. Nemendur sýndu áhuga á efninu og greinilegan vilja til þess að gera vel. Við viljum hvetja þau til þess að fara út, undirbúa sig vel og nýta svo þessa reynslu til þess að æfa ákvarðanatöku í snjóflóðalandslagi, þetta kemur einungis með því að fara út og gera og maður heldur áfram að læra út lífið. 

Takk kærlega fyrir samveruna kæru nemendur, við hlökkum til að sjá sum ykkar á fjallaskíðanámskeiði fyrir austan eftir tæpan mánuð! 

Kennarar voru Erla Guðný Helgadóttir, Ívar Finnbogason og Smári Stefánsson og greinina skrifaði Erla Guðný. 

Aðrar fréttir

Vetrarferðamennska

Vetrarferðamennska

Vetrarferðamennskuáfanginn í fjallamennskunáminu hófst með vinnustofu í Reykjavík þar sem nemendur fóru yfir leiðaval, hvernig á að ferðast án ummerkja og notkun á viðleigubúnaði í vetraraðstæðum. Daginn eftir var förinni heitir norður í fjögurra nátta tjaldferðalag...

Framhald í Fjallaskíðamennsku FAS

Framhald í Fjallaskíðamennsku FAS

Þá var komið að síðasta fjallaskíðanámskeiði vetrarins. Framhaldsnemar héldu enn á ný norður í land til þess að auka færni sína á fjallaskíðum. Hópurinn hittist í bakaríi á Akureyri þar sem morgunfundur var haldinn að venju og farið var yfir búnaðinn. Í þetta sinn var...

Alexandra syngur fyrir FAS

Alexandra syngur fyrir FAS

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin 6. apríl næstkomandi. Keppnin verður haldin í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Að þessu sinni taka 23 keppendur þátt. Söngkeppin hefst kukkan 19:45 og verður einnig í beinni útsendingu á RÚV. Einn keppenda er Alexandra Hernandez...