Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 2. – 6. febrúar. Þar var á dagskrá að skíða saman og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð á fimm dögum. Fyrirlestrar og innikennsla fóru fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga en þar er glæsileg aðstaða til kennslu. Útiæfingar og skíðamennska fóru fram á Dalvík og í Hlíðarfjalli.
Námskeiðið gekk vel en nemendur sýndu mikla framför á skíðunum, áhuga á snjóflóðafræðunum, fengu tækifæri til þess að æfa snjóflóðabjörgun og margt fleira. Það voru flottar aðstæður og hópurinn náði að skíða hálfan dag á Dalvík og heilan skíðadag í Hlíðarfjalli. Heilt yfir var veðrið betra en hægt er að biðja um í byrjun febrúar. Þó snjóaði töluvert fyrir síðasta daginn og snjóflóðahætta kom í veg fyrir að hægt væri að keyra um Ólafsfjarðarmúlann til þess að klára námskeiðið í skólanum. Síðasti morguninn var því tekinn í Gistihúsinu Gimli á Dalvík, sem var mjög notalegt.
Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að. Farið var í snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum. En auðvitað var lögð áhersla á skíða- og brettatækni sem er mikilvægur grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur geti tekið þátt á fjallaskíðanámskeiði, en grunnskíðafærni er skilyrði.
Eins og svo oft áður þá stýrði veður svolítið förinni og dagskráin á þessu námskeiði hefur alltaf verið sveigjanleg eftir því. Nemendur og kennarar sýndu þolinmæði og aðlögunarhæfni enda mikilvægt að vera móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti I náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.
Skólinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í Menntaskólanum á Tröllaskaga og við hlökkum til frekara samstarfs í framtíðinni!
Við hlökkum til að fá fjallaskíðahópinn til okkar eftir tæpar tvær vikur en nú eru frábærar fjallaskíðaaðstæður á Tröllaskaga og Eyjafirði.
Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite, Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Smári Stefánsson og Ívar Finnbogason.