AIMG Jöklaleiðsögn 1

Það er alltaf nóg að gera á vormánuðum í Fjallamennskunáminu. Í síðustu viku luku nemendur námskeiðinu Jöklaleiðsögn 1 sem haldið var á skriðjöklum í Öræfum. 

AIMG Jöklaleiðsögn 1 er staðlað námskeið sem haldið er í samvinnu við Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG). Námskeiðið miðar að því að undirbúa nemendur fyrir að vinna á skriðjöklum við leiðsögn. Farið er í sprungubjörgun og ísklifur, en megináherslan er á leiðsöguhliðina; samskipti við gesti, leiðaval, leiðsögutækni og áhættustýringu. 

Námskeiðið tókst vel og stóðu nemendur sig með prýði. Næstu skref hjá hópnum verða alpaferð, valnámskeið í klettaklifri og kayak og svo hæfniferð, en það er vikulöng lokaferð sem nemendur skipuleggja sjálfir með kennurum. 

 Íris Ragnarsdóttir Pedersen 

Listasvið FAS á Svavarssafni

Listasvið FAS heimsótti Svavarsafn þar sem sýningin Blámi eftir Þorvarð Árnason stendur yfir. Nemendur fengu að njóta listaverkanna sem eru í formi myndbanda, ljósmynda og hljóðverks. Þorvarður hitti nemendur og ræddi við þá um aðferðir sínar, innblástur og útfærslu á innsetningunni.

Innsetning Þorvarðar er óður til jöklanna sem eru ríkjandi í umhverfinu hér á Hornafirði. Ekki var komist hjá því að ræða loftslagsbreytingar og hopun jökla í því samhengi. Þorvarður hefur unnið við rannsóknir síðan í byrjun þessarar aldrar og spannar myndefnið hans feril hér í sveitarfélaginu.

Nemendur fengu nýja innsýn í listræna vinnu þar sem náttúruvísindum og listrannsóknum er skeytt saman. Útkoman er svo til sýnis inni í Svavarssafni og hvetjum við á Listasviði FAS alla til að kíkja við á Svavarssafni og sökkva sér ofan í litadýrð jöklanna.

Fjallamennskunemar í Frakklandi

Síðustu daga hafa framhaldsnemendur í fjallamennskunámi FAS verið í heimsókn hjá Íþrótta- og útivistarskóla (CREPS) í Valle Pont’Arc í Suður-Frakklandi en þar útskrifast nemendur t.d sem kayak-, hella-, fjallahjóla- og gljúfraleiðsögumenn. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni skólanna í gegnum Erasmus+ en tilgangurinn er meðal annars að deila reynslu og þekkingu svo hægt sé að læra hvert af öðru og að skoða hvernig náttúruvernd er háttað milli landanna.

Núna í april koma nemendur frá CREPS skólanum til Íslands til að kynnast starfsumhverfinu hér heima. Nemendurnir sem fóru til Frakklands voru: Arna Hrund, Ásta Kristín, Courtney Brooks, Guðný Gígja, Guðný Ósk og Maríanna Óskars. Það var Tómas Eldjárn Vilhjálmsson kennari í fjallamennskunáminu sem fylgdi hópnum.

 

Til hamingju Fókus

Vá – það má segja að þið hafið aldeilis átt erindi í höfuðstaðinn!!

Frábært hjá ykkur og innilega til hamingju með öll verðlaunin. Nú erum við öll í FAS að rifna af monti.

Söngkeppni og músíktilraunir

Á morgun, 1. apríl verður Söngkeppni framhaldsskólanna haldin í Hinu Húsinu og verður streymt beint frá keppninni á Stöð2 Vísi. En eins og við sögðum frá fyrr í vikunni er hún Isabella Tigist að keppa fyrir FAS.  Símakosning vegur mikið um úrslit og hefst hún á sama tíma og keppnin sjálf, kl 19:00 og lýkur stuttu eftir síðasta atriði. Símanúmer keppenda FAS er 900-9122 og við hvetjum alla til að fylgjast með keppninni og að sjálfsögðu að styðja okkar keppanda með því að kjósa hana.

Á morgun eru líka úrslit í Músíktilraunum en á síðasta þriðjudag varð ljóst að dómnefnd hafði valið Fókus okkar frá FAS til að taka þátt í úrslitunum. Sú keppni verður í Norðurljósasalnum í Hörpu og hefst klukkan 17:00. Hægt er að horfa á beina útsendingu frá keppninni á RÚV 2. Á úrslitakvöldi er það eingöngu dómnefnd sem velur vinningshafa, en salur og áheyrendur kjósa í símakosningu um Hljómsveit Fólksins.
Við vitum núna að Fókus mun stíga á svið um 18:30 og númerið fyrir símakosninguna
 er 900-9805. Það kostar 139 kr að hringja

Við óskum okkar fólki góðs gengis á morgun og öllum gleðilegra páska en páskafrí hófst í dag eftir kennslu.

Opið fyrir umsóknir í fjallanámi FAS

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í fjallamennskunáminu okkar í FAS. Námið hefur verið endurskipulagt til að mæta sem best þörfum nemenda. Námið samsett úr verklegum vettvangsáföngum og bóklegu fjarnámi.

Eins og áður er boðið upp á grunnnám í fjallamennsku annars vegar og framhaldsnám hins vegar. Nemendur í grunnnámi hafa val um það hvort þeir taka námið á tveimur önnum eða fjórum. Þeir sem ljúka því námi fá tiltekin réttindi innan fagfélags íslenskra fjallaleiðsögumanna AIMG, og kallast námsleiðin leiðsögumaður með áherslu á jöklaleiðsögn.

Framhaldsnámið er kennt á tveimur önnum og þurfa nemendur að hafa lokið grunnnáminu hjá FAS til að geta sótt þar um. Námsleiðin þar kallast leiðsögumaður með áherslu á fjallgönguleiðsögn og er sérhæft nám í fjallamennsku.

Nú hefur verið tekið upp svokallað einingagjald í fjallamennskunáminu. Fullt nám í eina önn kostar 75.000 krónur og hálft nám 35.000 og á það við bæði um grunnnám og framhaldsnám. Allar nánari upplýsingar um námið er að finna á fjallanam.is og það er líka sótt um á þeirri síðu. Umsóknarfrestur er til 21. apríl.