Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the modern-events-calendar-lite domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Please see Debugging in WordPress for more information. (This message was added in version 6.7.0.) in /var/www/virtual/fas.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6121

Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the google-analytics-dashboard-for-wp domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Please see Debugging in WordPress for more information. (This message was added in version 6.7.0.) in /var/www/virtual/fas.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6121
Fréttir | FAS

Áfram halda opnir dagar í FAS

Í dag var áfram haldið með dagskrá opinna daga. Líkt og í gær var margt og mikið á boðstólum. Dagurinn hófst á morgunleikfimi á Nýtorgi og að því loknu var snyrtivörunámskeið þar sem þátttakendur voru m.a. að búa til andlitsmaska. Á sama tíma var haldið borðtennismót í Þrykkjunni. Eftir morgungrautinn var komið að spurningakeppni á milli kennara og nemenda og það voru kennarar sem báru sigur úr býtum.

Margt annað var á dagskrá í dag. Stelpurnar í Fókus voru með kynningu og þá kynnti Andrea Sól skiptinám en hún er nýlega komin eftir rúmlega 10 mánaða dvöl í Japan. Þá var möguleiki að eiga kaffispjall með Barða á kennarastofunni, boðið var upp á yndislestur á bókasafninu og einnig var hægt að taka þar í spil. Einhverjir völdu að spila badminton í íþróttahúsinu, aðrir fóru á crossfit-æfingu og nokkrir fengu prófa nýja golfherminn í golfskálanum.

Í lok dags var svo efnt til vöfflusamsætis á Nýtorgi. Þar runnu nýbakaðar vöfflur ljúflega niður og allir héldu saddir og sælir heim eftir daginn.

Fyrsti dagur opinna daga í FAS

Í dag hófust opnir dagar í FAS en þá er hefðbundið nám sett til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við allt annað. Skipulagið að þessu sinni er frábrugðið því sem við höfum átt að venjast síðustu ár. Núna eru opnir dagar settir saman úr mörgum smærri viðburðum. Nemendur þurfa að taka þátt í um 20 mismunandi viðburðum til að fá einingu í námsferilinn.

Það hefur heldur betur verið komið víða við í dag. Nemendur byrjuðu daginn á morgunleikfimi á Nýtorgi og í kjölfarið hafa verið kynningar, alls kyns örnámskeið, útivist, kynningar á ýmsum íþróttum utan FAS og svo spilamennska.

Dagurinn hefur gengið ljómandi vel og ekki annað að sjá en allir séu sáttir.

Fræðsla um mannréttindi

Fyrr í þessari viku fengu nemendur og kennarar FAS fræðslu um mannréttindi. Það var ELSA á Íslandi sem eru samtök evrópska laganema og lögfræðinga sem stóðu fyrir fræðslunni en þau hafa verið að heimsækja framhaldsskóla og halda gagnvirk erindi um mannréttindi. Það var komið víða við og m.a. fjallað um lýðræði, lög og alls kyns réttindi sem einstaklingar hafa.

Sú sem sá um kynninguna var Arndís Ósk Magnúsdóttir sem er fyrrum nemandi hér í FAS en hún mun í vor ljúka master í lögfræði með áherslu á mannréttindi. Það var einkar ánægjulegt að sjá hana hér eystra og við þökkum henni kærlega fyrir komuna og innleggið.

 

Grunnur í fjallaskíðamennsku

Einungis tæpum tveimur vikum eftir snjóflóðanámskeiðið voru nemendur aftur mættir norður á Dalvík á fjögurra daga grunnnámskeið í fjallaskíðamennsku. 19 nemendur sóttu námskeiðið og voru kennarar þrír.

Nú var áherslan lögð á ferðamennsku á skíðum í fjalllendi og bjuggu nemendur yfir góðum snjóflóða- og skíðagrunni fyrir það síðan í byrjun febrúar. Nemendur fengu góða kynningu á svæðinu og á fjórum dögum var skíðað vítt og breitt um Tröllaskagann. Hópurinn stóð saman í blíðaskaparveðri á toppi Karlsárfjalls, skíðaði mjúka lausamjöll í innanverðum Svarfaðardal og upplifði almennilegan skafrenning í fjallahæð og harðfenni á Presthnjúki og Vatnsendahnjúki. Námskeiðinu lauk síðan á hóp-snjóflóðabjörgun í Upsadal ofan Dalvíkur. 

Að morgni hvers dags var farið yfir veðurspá og snjóalög ásamt áætlun dagsins og fengu nemendur að spreyta sig á því verkefni í hópum til skiptis. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir fjallaskíðaferðir, hafa góða mynd af snjóalögum og veðurspá dagsins en einnig að þekkja landslagið vel, skoða vandlega kort og leiðir og hlaða þeim niður í tækið sitt. Í feltinu er síðan hægt að nýta þá vitneskju til ákvarðanatöku en einnig bætast við mikilvægar upplýsingar á ferðinni um snjó og leiðarval og það er nauðsynlegt að temja sér umhverfisvitund og læra vel inn á landslagslestur m.t.t. snjóflóða. 

Nemendur sýndu mikla framför á námskeiðinu, einnig þrautseigju og áhuga á námsefninu. Fjallaskíðin veita manni mikið frelsi á fjöllum og ef skíðakunnáttan samhliða snjóflóðaþekkingu, góðum undirbúningi og umhverfisvitund er til staðar þá gerist útivistin varla betri. 

Næst á dagskrá er fjallaskíðanámskeið fyrir framhaldsnema og við kennararnir hlökkum til að taka fjallaskíðaævintýrið á næsta stig!  

Kennarar námskeiðsins voru Erla Guðný Helgadóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Smári Stefánsson. Erla skrifar greinina. 

10. bekkur kynnir sér FAS

Það styttist óðum í að nemendur í 10. bekk ljúki grunnskólagöngunni og þá þarf að fara að huga að næstu skrefum. Af því tilefni er 10. bekk boðið að koma og kynna sér líf og starf í FAS og í dag kom helmingur væntanlegra útskriftarnemenda í heimsókn.

Það voru nemendur í áfanganum „Inngangur að framhaldsskóla“ sem sáu um að skipuleggja heimsóknina og taka á móti gestunum. Fyrst var boðið upp á graut á Nýtorgi en nemendur FAS eiga þess kost að fá hafragraut í löngu pásunni fyrir hádegi. Gestunum var einnig sagt frá skólanum og starfseminni þar. Að því loknu var gengið með nemendur í smærri hópum inn í kennslustundir sem voru í gangi og aðstaða í öllum skólanum skoðuð.

Heimsóknin gekk ljómandi vel og vonandi hafa margir nemendur betri hugmynd um skólastarf FAS eftir heimsóknina. Þann 18. mars kemur svo hinn helmingur væntanlegra útskriftarnemenda grunnskólans í heimsókn og þá verður leikurinn endurtekinn.

Farfuglarnir farnir að mæta

Í dag var komið að annarri fuglatalningu vetrarins í Óslandi. Vetur konungur er greinilega enn við völd því það var nokkur vindur, hiti um frostmark og jafnvel mátti sjá nokkur snjókorn falla. Það er þó greinilegt að það styttist í að vorið sé á næsta leiti því það mátti sjá nokkrar tegundir farfugla sem þegar eru mættir. Á meðan við dvöldum í Óslandinu í dag mátti sjá tvær álftir setjast á vatnið en mjög líklega má telja að þær séu nýkomnar úr farfluginu yfir hafið frá Bretlandi. Í fjörunni spókuðu sig nokkrir tjaldar og höfðu hátt og þegar betur var að gáð var nokkuð greinilegt að einhverjir þeirra voru að gera sig líklega til að finna sér förunaut fyrir sumarið.

Það sáust 15 tegundir í dag og það voru rúmlega 2000 fuglar taldir, mest var af æðarfugli en einnig margar tegundir máva.