Grunnur í fjallaskíðamennsku

05.mar.2024

Einungis tæpum tveimur vikum eftir snjóflóðanámskeiðið voru nemendur aftur mættir norður á Dalvík á fjögurra daga grunnnámskeið í fjallaskíðamennsku. 19 nemendur sóttu námskeiðið og voru kennarar þrír.

Nú var áherslan lögð á ferðamennsku á skíðum í fjalllendi og bjuggu nemendur yfir góðum snjóflóða- og skíðagrunni fyrir það síðan í byrjun febrúar. Nemendur fengu góða kynningu á svæðinu og á fjórum dögum var skíðað vítt og breitt um Tröllaskagann. Hópurinn stóð saman í blíðaskaparveðri á toppi Karlsárfjalls, skíðaði mjúka lausamjöll í innanverðum Svarfaðardal og upplifði almennilegan skafrenning í fjallahæð og harðfenni á Presthnjúki og Vatnsendahnjúki. Námskeiðinu lauk síðan á hóp-snjóflóðabjörgun í Upsadal ofan Dalvíkur. 

Að morgni hvers dags var farið yfir veðurspá og snjóalög ásamt áætlun dagsins og fengu nemendur að spreyta sig á því verkefni í hópum til skiptis. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir fjallaskíðaferðir, hafa góða mynd af snjóalögum og veðurspá dagsins en einnig að þekkja landslagið vel, skoða vandlega kort og leiðir og hlaða þeim niður í tækið sitt. Í feltinu er síðan hægt að nýta þá vitneskju til ákvarðanatöku en einnig bætast við mikilvægar upplýsingar á ferðinni um snjó og leiðarval og það er nauðsynlegt að temja sér umhverfisvitund og læra vel inn á landslagslestur m.t.t. snjóflóða. 

Nemendur sýndu mikla framför á námskeiðinu, einnig þrautseigju og áhuga á námsefninu. Fjallaskíðin veita manni mikið frelsi á fjöllum og ef skíðakunnáttan samhliða snjóflóðaþekkingu, góðum undirbúningi og umhverfisvitund er til staðar þá gerist útivistin varla betri. 

Næst á dagskrá er fjallaskíðanámskeið fyrir framhaldsnema og við kennararnir hlökkum til að taka fjallaskíðaævintýrið á næsta stig!  

Kennarar námskeiðsins voru Erla Guðný Helgadóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Smári Stefánsson. Erla skrifar greinina. 

Aðrar fréttir

Umhverfisdagur Nýheima

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli...

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...

Á leið til Noregs

Á leið til Noregs

Við höfum áður sagt frá nemendaskiptaverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra en það verkefni hófst síðastliðið haust. Þetta er tveggja ára verkefni undir merkjum Nordplus og þátttökulöndin eru Finnland, Noregur og Ísland. Í verkefninu er gert...