Í dag var áfram haldið með dagskrá opinna daga. Líkt og í gær var margt og mikið á boðstólum. Dagurinn hófst á morgunleikfimi á Nýtorgi og að því loknu var snyrtivörunámskeið þar sem þátttakendur voru m.a. að búa til andlitsmaska. Á sama tíma var haldið borðtennismót í Þrykkjunni. Eftir morgungrautinn var komið að spurningakeppni á milli kennara og nemenda og það voru kennarar sem báru sigur úr býtum.
Margt annað var á dagskrá í dag. Stelpurnar í Fókus voru með kynningu og þá kynnti Andrea Sól skiptinám en hún er nýlega komin eftir rúmlega 10 mánaða dvöl í Japan. Þá var möguleiki að eiga kaffispjall með Barða á kennarastofunni, boðið var upp á yndislestur á bókasafninu og einnig var hægt að taka þar í spil. Einhverjir völdu að spila badminton í íþróttahúsinu, aðrir fóru á crossfit-æfingu og nokkrir fengu prófa nýja golfherminn í golfskálanum.
Í lok dags var svo efnt til vöfflusamsætis á Nýtorgi. Þar runnu nýbakaðar vöfflur ljúflega niður og allir héldu saddir og sælir heim eftir daginn.