Í dag var komið að annarri fuglatalningu vetrarins í Óslandi. Vetur konungur er greinilega enn við völd því það var nokkur vindur, hiti um frostmark og jafnvel mátti sjá nokkur snjókorn falla. Það er þó greinilegt að það styttist í að vorið sé á næsta leiti því það mátti sjá nokkrar tegundir farfugla sem þegar eru mættir. Á meðan við dvöldum í Óslandinu í dag mátti sjá tvær álftir setjast á vatnið en mjög líklega má telja að þær séu nýkomnar úr farfluginu yfir hafið frá Bretlandi. Í fjörunni spókuðu sig nokkrir tjaldar og höfðu hátt og þegar betur var að gáð var nokkuð greinilegt að einhverjir þeirra voru að gera sig líklega til að finna sér förunaut fyrir sumarið.
Það sáust 15 tegundir í dag og það voru rúmlega 2000 fuglar taldir, mest var af æðarfugli en einnig margar tegundir máva.