Það styttist óðum í að nemendur í 10. bekk ljúki grunnskólagöngunni og þá þarf að fara að huga að næstu skrefum. Af því tilefni er 10. bekk boðið að koma og kynna sér líf og starf í FAS og í dag kom helmingur væntanlegra útskriftarnemenda í heimsókn.
Það voru nemendur í áfanganum „Inngangur að framhaldsskóla“ sem sáu um að skipuleggja heimsóknina og taka á móti gestunum. Fyrst var boðið upp á graut á Nýtorgi en nemendur FAS eiga þess kost að fá hafragraut í löngu pásunni fyrir hádegi. Gestunum var einnig sagt frá skólanum og starfseminni þar. Að því loknu var gengið með nemendur í smærri hópum inn í kennslustundir sem voru í gangi og aðstaða í öllum skólanum skoðuð.
Heimsóknin gekk ljómandi vel og vonandi hafa margir nemendur betri hugmynd um skólastarf FAS eftir heimsóknina. Þann 18. mars kemur svo hinn helmingur væntanlegra útskriftarnemenda grunnskólans í heimsókn og þá verður leikurinn endurtekinn.