Health hópurinn á turni Wrocławski háskólans í Wrocław.
Heldur var nú „Health“ hópurinn orðinn lúinn þegar hann kom til Wroclaw undir morgun síðasta mánudag. Lagt var af stað til Keflavíkur fyrir hádegi á sunnudag og tók það ríflega 18 klukkustundir að ná áfangastað. Á flugvellinum í Berlín var ein ferðataskan tekin í misgripum og var það heilmikið vesen að endurheimta töskuna. Hún var þó komin til eigandans hér í Wroclaw um sólarhring síðar. Sá sem tók töskuna í misgripum mátti keyra um 1000 kílómetra til að koma töskunni til skila og nálgast sinn farangur. Það er nú eins gott að skoða vel hvort að farangurinn sé réttur.
Hér er nóg að gera. Strax á mánudag héldu íslensku krakkarnir kynningarnar sínar og tókst það ljómandi vel. Eftir kynningarnar var farið í Sky tower sem er hæsta bygging í Póllandi og svo síðar í heimsókn í ráðhús borgarinnar. Í gær, þriðjudag lærðu nemendur pólskan þjóðdans, fóru í heimsókn í háskóla (Uniwersytet Wrocławski) og röltu um miðbæinn með leiðsögn þar sem við fræddumst heilmikið svo eitthvað sé nefnt.
Í dag miðvikudag var svo vinnudagur í skólanum þar sem var m.a. skyndihjálparnámskeið, verkefnavinna og körfuboltaleikur. Á morgun er svo dagsferð í Góry Stołowe þjóðgarðinn.
Nánar má lesa um ferðir hópsins á http://health.fas.is/ en við reynum að uppfæra síðuna reglulega.
Á morgun halda þátttakendur í verkefninu „Your Health is your Wealth“ af stað áleiðis til Póllands. Fyrsti áfangastaðurinn er Reykjavík. Leiðin liggur áfram á sunnudag áleiðis til borgarinnar Wroclaw en þar er samstarfsskólinn.
Hópsins bíður langt og strangt ferðalag. Á sunnudag verður flogið til Berlínar. Þar þarf hópurinn að bíða í nokkrar klukkustundir en heldur síðan áfram förinni með rútu og ætti að vera kominn á áfangastað undir morgun næsta mánudag. Ytra verður fengist við margvísleg verkefni, bæði í leik og starfi.
Á meðan á ferðalaginu stendur er ætlunin að halda úti dagbók og munum við reyna að uppfæra hana eins oft og við getum. Nánar má sjá um verkefnið og ferðir hópsins á http://health.fas.is
Frá því á miðvikudagsmorgun hafa nemendur í FAS heldur betur breytt til. En þá hófust vísindadagar sem að þessu sinni eru í samstarfi við sambýlinga skólans í Nýheimum. Þó verkefnin séu ólík er sama hugsun að baki þeirra allra, þ.e. að nemendur kynnist vinnubrögðum og aðferðum í vísindavinnu.
Núna í morgunsárið á föstudegi eru nemendur að leggja lokahönd á verkefnavinnuna. Klukkan 11:55 munu verkefnin verða kynnt stuttlega á Nýtorgi og í kjölfarið verður afrakstur vinnunnar sýndur á efri hæðinni.
Gestir og gangandi eru hvattir til að líta við og skoða vinnu hópanna. Sem dæmi um verkefni eru: fornleifarannsóknir, útreikningar við endurgerð á húsi, sjónarhorn listamanns, skóli framtíðar, ritgerðasmíð og vefvinna, rannsóknir á fiðrildum og skoðannakönnun meðal ferðamanna. Sýningin í FAS verður opin til 14:00. Einnig er hægt að sjá vinnu nemenda á http://visindavika.fas.is
Mynd frá vísindadögum 2014.
Líkt og undanfarin ár verður skólastarfið á önninni aðeins brotið upp með vísindadögum. Þeir hefjast miðvikudaginn 28. október og standa út vikuna.
Í vinnu á vísindadögum er ætíð sama upplegg. Fyrsta daginn afla nemendur gagna, annan daginn er unnið úr gögnunum og þriðja og síðasta daginn eru svo kynningar undirbúnar og afrakstur vinnunnar sýndur.
Að þessu sinni munu FAS og aðrar stofnanir í Nýheimum vinna saman. Markmiðið er tvíþætt. Annars vegar að kynna fyrir nemendum þá blómlegu starfsemi sem er í húsinu og hins vegar að nýta þann mannauð sem er í Nýheimum.
Á morgun föstudag klukkan 11:55 verður kynnt hvaða verkefni eru í boði. Kynningin fer fram í fyrirlestrasal Nýheima. Að kynningu lokinni geta nemendur skráð sig í hópa. Gert er ráð fyrir að allt að tíu nemendur geti verið í hverjum hópi.
Í síðustu viku fóru fram miðannarviðtöl í FAS en þá hitta nemendur kennara sína og þeir fara saman yfir stöðu mála. Í flestum áföngum er gefið miðannarmat. Þar er hægt að fá þrjár einkunnir; G sem bendir til að nemandi sé í góðum málum, V sem segir að allt sé í lagi en samt hægt að bæta sig. Þriðja einkunnin er O sem stendur fyrir óviðunandi. Þá vísbendingu ber að taka alvarlega og ef ekki verður breyting til batnaðar gæti svo farið að nemandi standist ekki áfangann í lokamati. Þessa vikuna hafa nemendur sem eru yngri en 18 ára og forráðamenn þeirra fengið sent heim bréf með miðannarmatinu. Fái einhver nemandi tvö O eða fleiri er jafnan boðað til viðtals og reynt að finna út hvernig bæta megi árangurinn.
Þegar önnin er hálfnuð er orðið tímabært að fara að huga að vali fyrir næstu önn og skipuleggja nám sitt í skólanum. Í morgun var námsval við skólann kynnt og hvaða möguleika hver og einn hefur til að stunda það nám sem hann hefur valið sér eða hefur áhuga á. Næstu daga og vikur koma nemendur og hitta umsjónarkennara sína til að skipuleggja námið. Því fyrr sem skipulagið liggur fyrir því betra.
Fimmtudaginn 8. október leggja nemendur í áfanganum DANS2SS05 af stað áleiðis til Kaupmannahafnar ásamt Guðmundi Inga kennara.
Það sem af er vetri hafa nemendur í áfanganum unnið að verkefnum sem tengjast ævi og störfum Kristjáns fjórða Danakonungs og þeim byggingum sem hann lét reisa. En hann er sá konungur sem lét sér hvað mest málefni Íslands varða. Í vinnunni í vetur hafa nemendur jafnframt kynnt sér venjur og siði dansks samfélags á valdatíma konungs.
Hópurinn flýgur utan á föstudagsmorgun og hans bíður þéttskipuð dagskrá þar sem skoðaðar verða margar af helstu byggingum og söfnum sem tengjast sögu Kristjáns fjórða. Auk þess að feta slóðir konungs ætlar hópurinn að rölta eftir Strikinu og á laugardagskvöldið er ætlunin að bregða sér í Tívolíið og athuga hvernig tækin virka þar.
Hópurinn er væntanlegur til landsins á mánudagskvöld og nemendur mæta reynslunni ríkari í skólann á þriðjudag.