Jólafrí og vorönn 2016

jolamyndSkólastarfi haustannarinnar er nú lokið og allir komnir í jólafrí í FAS. Það er örugglega kærkomið að leggja skræðurnar til hliðar um stund og jafnvel lúra lengur í skammdeginu.

Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 4. janúar klukkan 10 en þá verður skólinn settur. Í kjölfarið verða umsjónarfundir þar sem nemendur fá afhentar stundaskrár. Kennsla hefst svo þriðjudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum farsælt og gott.

Prófsýning á fimmtudag

cropped-fas_logo_2.gifNú er farið að hægjast um hjá nemendum því skriflegum prófum er lokið í FAS. Það sama er þó ekki hægt að segja um kennara því þeir eru í óða önn að fara yfir próf og reikna út lokaeinkunnir. Um leið og einkunnir eru tilbúnar eru þær settar í Innu.
Fimmtudaginn 17. desember verður prófsýning á milli tíu og tólf. Nemendur eru hvattir til að koma og líta á prófin. Það getur oft verið ágætt að skoða prófið með kennurunum og fá útskýringar á einkunnagjöf.

Síðasta kennsluvika annarinnar

skolalif_nov

Í dönskutíma.

Áfram flýgur tíminn og nú er komin síðasta kennsluvika annarinnar. Það er því í mörg horn að líta bæði hjá nemendum og kennurum.
Þessa vikuna standa yfir munnleg próf í erlendum tungumálum og stærðfræði. Tímasetningar þeirra prófa eru í samráði við kennara. Þá eru nokkrir áfangar þar sem nemendur taka ekki próf en þurfa að skila stærri verkefnum.
Á morgun miðvikudag eru nokkrar slíkar kynningar. Þá munu nemendur í verkefnaáfanga og stjórnmálafræði vera með opinber skil í fyrirlestrasal Nýheima. Kynningarnar hefjast klukkan 9:05 og eru allir velkomnir til að koma og kynna sér áhugaverð verkefni. Klukkan hálf tíu verður hlé á kynningunum og þá munu nemendur í ERLE2ER05 vera með stutta kynningu á FAS sem heilsuskóla.
Í næstu viku hefjast svo skrifleg próf samkvæmt próftöflu.

Jarðfræðikort frá ÍSOR

isor

Eyjólfur og Hjördís með kortið góða frá ÍSOR.

Í dag barst skólanum góð gjöf en það er nýútkomið berggrunnskort af Íslandi. Það er fyrirtækið ÍSOR, Íslenskar orkurannsóknir sem gefur kortið. ÍSOR er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og sinnir rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og kennslu á sviði jarðvarma, grunnvatns og kolefna í jörðu.
ÍSOR gefur nú framhaldsskólum og háskólum sem sinna náttúrufræðikennslu kortið í tilefni þess að nú eru 70 ár síðan skipulagðar jarðhitarannsóknir hófust hér á landi. Kortið er unnið í samræmi við nýjar alþjóðlegar skilgreiningar á skiptingu jarðsöguskeiða sem gengu í gildi 2012.
FAS þakkar ÍSOR góða og gagnlega gjöf sem mun verða nýtt í náttúrufræðikennslu í skólanum.

Evrópskt menntanet

Fulltrúar sjö skóla Fjarmenntaskólans voru dagana 9.-13. nóvember á ráðstefnu í Zagreb um menntun og upplýsingamiðlun.  Ráðstefnan var tíunda ársráðstefna ecoMedia sem eru samtök 5000 skóla víðsvegar um Evrópu.  Fjarmenntaskólanum var boðið að taka sæti í stjórn samtakanna og óskir komu fram um að halda ráðstefnu ecoMedia á Íslandi árið 2018.

FAS fær evrópsk gæðaverðlaun

55

Globe hópurinn í Unverjalandi haustið 2013

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu hefur hlotið evrópskt gæðamerki fyrir framúrskarandi árangur í samstarfsverkefni með ungverskum framhaldsskóla.  Verkefnið nefnist Living in a Changing Globe og snerist um loftslagsbreytingar.  Það hófst haustið 2013 og lauk formlega nú í haust.  Þetta er mesta viðurkenning sem hægt er að fá fyrir rafræn verkefni af þessu tagi og því mikið gleðiefni fyrir skólann. Skólinn hefur nú leyfi til að hafa evrópska gæðamerkið á heimasíðu sinni og fær að auki umfjöllun á heimasíðu eTwinning.

FAS hefur tekið þátt í fjölmörgum erlendum samstarfsverkefnum undanfarin ár.  Flest eru svokölluð eTwinning verkefni en eTwinning er evrópskt tengslanet þar sem skólafólk á öllum skólastigum getur fundið sér samstarfsaðila á ýmsum sviðum. Verkefnin eru bæði rafræn en geta einnig falist í nemendaskiptum milli landa.  Það er Rannís sem hefur umsjón með eTwinning hér á landi.