Náttúrustofa Suðausturlands og FAS fjárfesta saman í dróna

02.nóv.2016

Guðmundur Ingi í miðju, Kristín og Snævar frá Náttúrustofunni og svo Eyjólfur og Hjördís frá FAS. Að sjálfsðgðu var myndin tekin með drónanum.

Nýlega bættist í tækjabúnað Náttúrustofu Suðausturlands og Framhaldsskólans í Austur – Skaftafellssýslu. Að þessu sinni var fjárfest í DJI Phantom 4 dróna. Nokkrir aðilar styrktu kaupin en þeir eru: Flutningadeild KASK, Landsbankinn, Nettó, Skinney-Þinganes og Uppbyggingasjóður Suðurlands.

Upphaf þess að þetta tæki er nú til má rekja til umræðu á kennarastofunni í FAS þar sem var verið að ræða jöklamælingar og gaman væri að geta skoðað jöklana ofan frá. Guðmundur Ingi dönskukennari greip þetta á lofti og sagðist vilja skoða möguleika á því að finna aura til að fjármagna kaupin. Hann gekk í málið og eru honum  hér með færðar bestu þakkir. Þeim sem styrktu drónakaupin eru einnig færðar þakkir.

Dróninn kemur til með að nýtast Náttúrustofu og FAS vel við margvísleg verkefni. Nefna má eftirlit og mælingar á jöklum, ekki síst þar sem erfitt og hættulegt er að fara um. Þar verður nú hægt að fljúga yfir og afla gagna úr lofti. Einnig verður hægt að mynda jökulsporða ofan frá eða framan við t.d. þar sem lón liggja við jökulinn. Þá nýtist hann við kortlagningu á jökulgörðum og öðrum jarðmenjum. Dróninn mun þar að auki nýtast vel við gerð yfirlitsmynda og fræðsluefnis í tengslum við ýmis verkefni sem Náttúrustofan vinnur að.

Dróninn lyfti sér upp í nokkura tuga metra hæð og myndaði hópinn ofan frá.

Síðustu daga hafa Kristín og Snævarr verið að læra á drónann. Þessi mynd var tekin í morgun á einni slíkri æfingu. Þess má geta að á föstudag er ætlunin að mæla Heinabergsjökul og þá á einnig að nota drónann til að mynda jökulinn.

Aðrar fréttir

Landvarðanám í FAS

Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...

Jólamatur í FAS

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir...