Tíundi bekkur heimsækir FAS

Tíundi bekkur heimsækir FAS. Í gær komu góðir gestir í FAS en það voru nemendur í tíunda bekk grunnskólans. Nokkrir þeirra þekkja skólann orðið ágætlega en um langt skeið hafa nemendur getað tekið bóklegar valgreinar í lok grunnskólans.
Í byrjun var nemendum boðið í fyrirlestrasalinn þar sem Zophonías skólameistari kynnti námsframboð skólans og hverjar eru helstu áherslur í náminu samkvæmt námskrá. Margrét Gauja námsráðgjafi kynnti hvaða þjónusta er í boði hjá skólanum og forsetar nemendafélagsins ásamt Selmu félagslífsfulltrúa sögðu frá félagslífi í skólanum og helstu viðburðum á hverju ári.
Að loknum kynningum gengu nemendur um skólann og í lokin var boðið upp á veitingar á Nýtorgi en margir kalla kaffiteríuna því nafni.
Við þökkum nemendum í tíunda bekk kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta í haust.

Framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna

Í gær hófust opnir dagar í FAS. Þá er skólabókum ýtt til hliðar um stund og nemendur fást við eitthvað allt annað en dagsdaglega. Fyrir hádegi er hópastarf þar sem nemendur velja sér hóp eftir áhuga. Sem dæmi um hópa sem starfa núna má nefna námskeið í sjálfsvörn, matreiðslunámskeið og íþróttahóp. Þá er nokkuð stór hópur nemenda að undirbúa árshátíð skólans með því að útbúa skreytingar eða undirbúa atriði.
Eftir hádegi taka nemendur þátt í sameiginlegum viðburðum. Í gær voru alls kyns þrautir í Bárunni og í dag var spilaður Hornafjarðarmanni en sá liður hefur verið fastur viðburður á opnum dögum um all langt skeið. Þegar yfir lauk stóð Marteinn uppi sem sigurvegari og telst því núverandi framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna. Í öðru sæti varð Jóhann Klemens og Björgvin Konráð í því þriðja. Allir fá þeir viðurkenningarskjal frá útbreiðslustjóra mannans og að auki pizzuveislu frá Hótel Höfn.
Í kvöld verður svo leikritið<em> Love me do</em> frumsýnt í Mánagarði og ekki laust við spenning hjá mörgum. Annað kvöld verður svo hápunktur ársins en þá er árshátíð nemenda.

‘Love me do’

Strax í upphafi annar hófust æfingar á söngleiknum Love me do. Eins og oft áður er hér um að ræða samvinnuverkefni hjá Leikfélagi Hornafjarðar og FAS. Höfundur og leikstjóri verksins er Stefán Sturla Sigurjónsson. Söngleikurinn er byggður á lögum Bítlanna.
Það er stór hópur nemenda sem kemur að sýningunni. Leikarar eru um tuttugu og að auki koma nemendur að öðrum hefðbundnum störfum í leikhúsi s.s. hárgreiðslu og förðun. Tónlistin í leikritinu verður flutt af hljómsveit og hafa hljómsveitarmeðlimir æft á fullu undanfarnar vikur.
Frumsýning sem jafnframt er frumflutningur á verkinu verður í Mánagarði fimmtudaginn 19. febrúar. Sýningafjöldi er takmarkaður og því um að gera að taka frá tíma fyrir þennan spennandi viðburð.