Í ár mun FAS í fyrsta skipti taka þátt í MORFÍs sem er Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi og er ein af þremur stærstu keppnum sem framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í sín á milli. Hinar eru Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna.
Í haust vaknaði áhugi fyrir því að FAS myndi taka þátt í MORFÍs. Sjö nemendur tóku þátt í undirbúningi en það eru fjórir sem skipa liðið. Lið FAS er skipað Elínu Ásu, Marteini, Sigrúnu Birnu og Sunnu Dögg. Bjarni Ólafur Stefánsson og Hrefna Rún Kristinsdóttir hafa haft veg og vanda að undirbúningi liðsins ásamt Selmu og Möggu Gauju.
Keppnin sjálf er með útsláttarfyrirkomulagi. Í hverri MORFÍS-viðureign takast á tvö keppnislið skipuð fjórum nemendum frá hvorum skóla. Þeir kallast liðsstjóri, frummælandi, meðmælandi og stuðningsmaður. Val á sigurvegara byggist á rökum liðanna, flutningi, svörum við rökfærslu andstæðinganna og hughrifum dómara.
Í kvöld ætlar liðið að æfa sig og mætir ræðumönnum frá sveitarfélaginu þar sem rætt verður um kæruleysi. Keppt verður á Nýtorgi í Nýheimum og hefst viðureignin klukkan 20:00 en húsið opnar 19:45.
Lið FAS keppir síða 22. janúar við FSU á Selfossi og fer viðureignin fram syðra. Nemendur sem og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta í kvöld og fylgjast með skemmtilegri umræðu.