Það er heldur betur nóg um að vera hjá nemendum í þessari viku. Í síðustu viku vann Gettu betur lið FAS lið MK og komst þar með í aðra umferð. Næsta viðureign fer fram annað kvöld, miðvikudagskvöld 20. janúar. Þá keppir liðið við lið Menntaskólans við Sund og hefst keppnin klukkan 20:30. Að sjálfsögðu er hægt að hlusta á RÁS2 en liðinu þykir ekki verra að fá stuðning í sal Nýheima þar sem okkar lið verður staðsett. Þá er þó mikilvægt að mæta tímanlega í Nýheima.
Á föstudag heldur svo MORFÍs lið FAS á Selfoss og mætir þar liði FSU klukkan 19:00. Umræðuefnið er frelsi og keppast nú liðin við að undirbúa sig. Viðureigninni verður streymt á netinu þannig að hægt verður að fylgjast með í beinni útsendingu. Slóðin verður birt skömmu fyrir keppni og verður sett á fésbókarsíðu nemendafélagsins.
Á fimmtudagskvöldið 21. janúar stendur svo Viðburðaklúbbur FAS fyrir bingói í Nýheimum og hefst það klukkan 19:30. Spjaldið kostar 500 krónur og margt góðra vinninga er í boði. Með bingóinu er klúbburinn að safna pening fyrir árshátíð skólans sem verður í næsta mánuði.
Það má því með sanni segja að það sé mikið um að vera hjá nemendum FAS þessa vikuna. Að sjálfsögðu vonum við að allt heppnist sem best.
Liðið okkar í Gettu betur stóð sig aldeilis vel í gær þegar það vann lið Menntaskólans í Kópavogi. Lið FAS fékk 27 stig en MK 15. Þar með er lið FAS komið í aðra umferð og er það í fyrsta skipti í áratug sem FAS kemst áfram úr fyrstu umferð.
Eftir keppnina í gær var dregið í viðureignir í síðari umferð í útvarpi. Miðvikudaginn 20. janúar mun lið FAS mæta liði Menntaskólans við Sund og hefst keppnin klukkan 20:30. Að sjálfsögðu verður hægt að hlusta á viðureignina á RÁS2.
Að sjálfsögðu óskum við okkar fólki góðs gengis.
Enn og aftur er komið að spurningakeppninni Gettu betur og að sjálfsögðu tekur FAS þar þátt.
Strax á haustdögum var öllum sem höfðu áhuga á keppninni boðið að taka próf og þeir sem skoruðu hæst boðið að mynda lið sem er skipað aðalmönnum og varamönnum. Hópurinn hefur hist reglulega og æft sig og notar til þess hin ýmsu spurningaspil. Rétt fyrir jólin keppti liðið við kennara í æsispennandi keppni sem endaði á bráðabana og höfðu kennarar þá betur.
Í kvöld tekur svo alvaran við en þá keppir liðið við MK í beinni útsendingu á RÁS2 og hefst viðureignin klukkan 19:30. Lið FAS að þessu sinni er skipað þeim Önnu Birnu, Björgvini Konráð og Lilju Karen. Það væri ekki verra að hafa einhverja til að styðja við hópinn í FAS en þeir þurfa þá að vera komnir í síðasta lagi 19:15 í fyrirlestrasal Nýheima.
Að sjálfsögðu óskum við liði FAS góðs gengis.
Í ár mun FAS í fyrsta skipti taka þátt í MORFÍs sem er Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi og er ein af þremur stærstu keppnum sem framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í sín á milli. Hinar eru Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna.
Í haust vaknaði áhugi fyrir því að FAS myndi taka þátt í MORFÍs. Sjö nemendur tóku þátt í undirbúningi en það eru fjórir sem skipa liðið. Lið FAS er skipað Elínu Ásu, Marteini, Sigrúnu Birnu og Sunnu Dögg. Bjarni Ólafur Stefánsson og Hrefna Rún Kristinsdóttir hafa haft veg og vanda að undirbúningi liðsins ásamt Selmu og Möggu Gauju.
Keppnin sjálf er með útsláttarfyrirkomulagi. Í hverri MORFÍS-viðureign takast á tvö keppnislið skipuð fjórum nemendum frá hvorum skóla. Þeir kallast liðsstjóri, frummælandi, meðmælandi og stuðningsmaður. Val á sigurvegara byggist á rökum liðanna, flutningi, svörum við rökfærslu andstæðinganna og hughrifum dómara.
Í kvöld ætlar liðið að æfa sig og mætir ræðumönnum frá sveitarfélaginu þar sem rætt verður um kæruleysi. Keppt verður á Nýtorgi í Nýheimum og hefst viðureignin klukkan 20:00 en húsið opnar 19:45.
Lið FAS keppir síða 22. janúar við FSU á Selfossi og fer viðureignin fram syðra. Nemendur sem og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta í kvöld og fylgjast með skemmtilegri umræðu.
Í morgun klukkan 10 hófst skólastarf á vorönninni þegar skólinn var settur. Þar á eftir fengu nemendur afhentar stundatöflur. Einhverjir hafa þurft að endurskoða val sitt og jafnvel breyta skráningum.
Kennsla hefst í fyrramálið samkvæmt stundaskrá og lögð er á það áhersla að nemendur verði virkir í náminu strax í upphafi.
Ef einhverjir skyldu vera velta fyrir sér námi við skólann er þeim bent á að skoða námsframboð á heimasíðu skólans. Við viljum líka minna á að hægt er að taka marga áfanga í fjarnámi. Föstudaginn 8. janúar lýkur skráningu í áfanga en best er að skrá sig sem fyrst.
Skólastarfi haustannarinnar er nú lokið og allir komnir í jólafrí í FAS. Það er örugglega kærkomið að leggja skræðurnar til hliðar um stund og jafnvel lúra lengur í skammdeginu.
Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 4. janúar klukkan 10 en þá verður skólinn settur. Í kjölfarið verða umsjónarfundir þar sem nemendur fá afhentar stundaskrár. Kennsla hefst svo þriðjudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.
Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum farsælt og gott.