Í þessari viku höfum við í FAS gefið okkur smá tíma fyrir félagslíf nemenda.
Á síðasta vetrardag var hefðbundin kennsla lögð niður í 2 tíma og nemendafundur haldinn. Þar var nemendum skólans skipt upp í hópa. Hver hópur fékk ákveðin fyrirmæli sem snérust um félagslíf og hvers vegna það væri mikilvægt. Einnig átti koma með hugmyndir um hvað hægt væri að gera til að efla félagslífið. Margar flottar hugmyndir komu frá hópunum og munu þær verða teknar fyrir af nemendaráði næsta haust. Það er jú undir nemendum komið að skipuleggja sitt félagslíf.
Sama dag voru kosningar í fullum gangi og nemendur kusu sér nýjan forseta og varaforseta nemendafélagsins. Í framboði voru fjórar glæsilegar stúlkur. Það voru þær Adisa Mesetovic, Björk Davíðsdóttir, Hafdís Lára Sigurðardóttir og Sigrún Birna Steinarsdóttir.
Það kom í ljós að ekki mátti minna muna á tveimur efstu frambjóðendunum en það munaði ekki nema einu atkvæði á milli þeirra. Það var hún Adisa sem hlaut flest atkvæði og verður þar með forseti nemendafélagsins á næsta ári og með henni verður Björk sem hlaut næstflest atkvæði. Við viljum óska þeim innilega til hamingju og á sama tíma vonum við innilega að Hafdís og Sigrún taki fullan þátt í nemendaráði næsta vetur líka enda mikill fengur að hafa þær.
Nemendur í íslensku hafa verið að lesa Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarson síðustu vikur. Unnin hafa verið verkefni í tengslum við lesturinn, farið í heimsókn á Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit og velt upp hugmyndum um lífið nú og þá. Atburðirnir sem lýst er í sögunni gerðust árið 1912 og því er forvitnilegt að bera saman tímana tvenna og velta fyrir sér breytingum á nánast öllum sviðum daglegrar tilveru. En innst inni erum við bara venjulegt fólk. Ungt fólk þarf að skemmta sér, ræða um sín áhugamál, stunda vinnu til að geta borgað húsaleigu og mat og eiga sína drauma um betra líf.
Allt þetta og meira til má sjá í sýnishornum af verkefnum nemenda sem verða til hengd upp á veggi í stofu 204 í FAS í dag.
Sýningin verður opin út þennan mánuð og eru allir velkomnir að skoða afrakstur nemenda þegar ekki er verið að kenna í stofunni.
Við viljum koma að sérstöku þakklæti á framfæri til Þorbjargar Arnórsdóttur forstöðumanns Þórbergsseturs fyrir góðar móttökur og fróðleik.
Pólski hópurinn við lóðsbátinn.
Þessa vikuna höfum við haft góða gesti frá Póllandi í FAS. Það eru nemendur í samstarfsverkefninu „Your health is your wealth“ sem eru að endurgjalda heimsókn nemenda FAS frá því í lok síðustu annar. Hópurinn kom til Hafnar þann fyrsta apríl síðastliðinn.
Dagana sem hópurinn hefur staldrað við hefur verið nóg að gera. Það á við bæði um sameiginlega verkefnavinnu og eins að sýna gestunum okkar fallega landshorn. Helgin var notuð til að sýna gestunum landið og lífið í sveitinni og var m.a. farið á Stokksnes og á Jökulsárslón. Á leiðinni frá Jökulsárlóni var komið við á Þórbergssetri, í hesthúsinu í Lækjarhúsum og fjósinu í Flatey. Í hádeginu voru grillaðar pylsur í Hestgerði og litið í útihúsin þar.
Í þessari viku hefur hópurinn farið í nokkrar heimsóknir hér á Höfn. Þar má m.a. nefna skoðunarferð í Skinney – Þinganes, Gömlubúð, Slysavarnarhúsið og siglingu með lóðsbátunum. Þá hefur pólski hópurinn farið tvisvar í tíma til Huldu í Hornhúsið og tekið nokkrar núvitundaræfingar. Í gær var svo kennsla lögð niður í fáeina tíma og þá kynntu gestirnir land sitt og þjóð, allir nemendur skólans fóru í ratleik um bæinn og í hádeginu voru grillaðir hamborgarar.
Veðrið hefur að stærstum hluta verið ágætt og oft hefur landið skartað sínu fegursta. Gestirnir eiga varla til orð til að lýsa landinu okkar og margar myndir hafa verið teknar. Fréttir af hverjum degi hafa verið skrifaðar á heimsíðu verkefnisins http://health.fas.is/
Á morgun heldur hópurinn svo af stað áleiðis til Keflavíkur þar sem hann gistir áður en haldið er utan á laugardag. Gert er ráð fyrir að sýna hópnum bæði Gullfoss og Geysissvæðið og einnig Þingvelli.
Töluverð áhersla hefur verið lögð á erlent samstarf í FAS undanfarin ár og eiga margir fyrrum nemendur ágætar minningar um þátttöku í slíku verkefni. Þetta samstarf væri varla mögulegt á aðkomu samfélagsins og ekki má heldur gleyma hlut foreldra og fjölskyldna. Eru öllum hér með færðar bestu þakkir.
Við höfum verið svo heppin að hitastig hefur tekið að hækka aðeins hérna á suðausturhorninu síðustu daga. Það má taka vel eftir því hérna í FAS og er eins og lundin léttist örlítið á nemendum og kennurum með hverjum sólardeginum. Kannski er ástæðan að páskafrí hefst eftir að kennslu lýkur á morgun, hver veit?
Í hádeginu í dag tóku nokkrir nemendur sig til og nutu sólarinnar fyrir utan Nýheima. Farið var í hina ýmsu leiki og mátti til dæmis sjá nemendur hoppa í snú snú og takast á í reipitogi.
Við vonum innilega að vorið sé komið og sólardagarnir verði fleiri á næstunni.
Ísilagt lónið
Í gær hélt hópur nemenda í umhverfis- og auðlindaferð í árlega álftatalningu í Lóni. Aðstæður að þessu sinni voru sérstakar því lónið þar sem álftirnar gjarnan halda sig var að stærstum hluta ísi lagt. Þess vegna voru mun færri fuglar á lóninu núna miðað við undanfarin ár. Þeir fuglar sem sáust héldu sig í vökum á lóninu og meðfram landi þar sem ís var horfinn.
Eins og nafn áfangans segir til um hefur nokkuð verið fjallað um umhverfið og hvernig við förum með það. Í ferðinni í gær ákváðum við að safna öllu drasli sem við sáum á talningastöðum og á þeirri leið sem við röltum. Afraksturinn varð fullur ruslapoki þar sem mest var um plast. En eins og margir vita eyðist það seint í náttúrunni og er skaðlegt fyrir lífríkið til lengri tíma litið. Á bakaleiðinni stoppuðum við hjá urðunarstaðnum fyrir sveitarfélagið í Lóni og virtum fyrir okkur holuna þar sem ruslið er urðað. Einhverjum fannst nú lyktin þar frekar slæm. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni á fésbókarsíðu skólans.
Háskóladagurinn verður með kynningu í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu þriðjudaginn 15. mars frá kl. 10 til 11:30.
Allir háskólar landsins kynna námsframboð sitt, sem telur yfir 500 námsleiðir, og námsráðgjafar verða á staðnum.
Langar þig í háskólanám? Ef svarið er já, þá viltu ekki missa af þessu einstaka tækifæri.
Allir velkomnir!
www.haskoladagurinn.is
www.facebook.com/haskoladagurinn
www.instagram.com/haskoladagurinn