Jákvæð samskipti í FAS

Þessa vikuna stendur yfir íþróttavika í sveitarfélaginu okkar. Markmiðið með íþróttavikunni er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir alla og er lögð áhersla á allir geti stundað einhvers konar íþróttir. Þar skiptir aldur, bakgrunnur eða líkamlegt ástand ekki máli. Það er hins vegar staðreynd að öll íþróttaiðkun er líkleg til að stuðla að bættri líðan.

Að sjálfsögðu er FAS með í íþróttavikunni og tekur þátt í viðburðum. Í dag kom til okkar Pálmar Ragnarsson fyrirlesari og körfuknattleiksþjálfari með fyrirlestur um jákvæð samskipti. Þar fjallaði hann á skemmtilegan hátt um hversu mikilivæg samskipti eru og mikilvægi þess fyrir alla að fá hrós.

Við þökkum Pálmari kærlega fyrir komuna og við förum svo sannarlega fróðari um mikilvægi jákvæðra samskipta út í daginn.

 

Jökla 2 AIMG námskeið

Þrír nemendur Fjallamennsku FAS stóðust á dögunum próf Félags Íslenskra Fjallaleiðsögumanna í Jöklaleiðsögn 2. Þetta var annað af þremur prófum sem hægt er að taka á þessu sviði og það síðasta sem boðið er upp á fyrir nemendur FAS.

Einungis þeir nemendur sem hafa þegar verið í vinnu á skriðjökli í 30 daga hið minnsta og auk þess lagt sig fram um að bæta og viðhalda tæknilegri færni eru gjaldgengir á þetta próf.

Við í FAS óskum þeim Jökli, Ástu og Maríuönnu til hamingju með áfangann.

Skólafundur í FAS

Reglulega eru haldnir svokallaðir skólafundir í FAS. Þá hittast nemendur og starfsfólk skólans og ræða mikilvæg mál er varða skólann.

Skólafundur haustannarinnar var haldinn í morgun. Lind skólameistari setti fundinn og lagði áherslu á hversu mikilvægt er að raddir nemenda sem og annarra heyrist. Fyrir fundinn hafði fundargestum verið skipt upp í hópa þar sem ræða átti ákveðin atriði undir stjórn svokallaðra málstofustjóra. Meðal þess sem var rætt var nýr áfangi í framboði skólans sem kallast „Inngangur að framhaldsskóla“. Þá var rætt um hvernig efla megi starfssemi og þátttöku í félagslífi skólans. Í einni málstofunni var verið að fara yfir helstu umgengisreglur við notkun á gervigreind og í annarri málstofu var verið að skoða hver einkunnarorð skólans ættu að vera.

Skólafundurinn gekk ljómandi vel og margar spennandi hugmyndir komu fram. Á næstunni verður farið yfir niðurstöður fundarins og þær kynntar í lok mánaðarins.

Nýtt foreldraráð í FAS

Í síðustu viku var haldinn foreldrafundur fyrir foreldra nemenda í FAS. Mæting var þokkaleg þó að við hefðum vissulega viljað sjá fleiri.

Á fundinum var farið yfir það helsta er varðar skólastarfið fram undan, bæði hvað varðar námið og félagslífið. Á fundinum var líka kosið í nýtt foreldraráð fyrir komandi skólaár. Nýtt foreldraráð er skipað af þeim: Guðrúnu Sturlaugsdóttur, Hugrúnu Hörpu Reynisdóttur og Sigrúnu Gylfadóttur. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í hópinn og hlökkum til samstarfsins.

Skemmtilegt ungmennaþing í Nýheimum

Það var margt um manninn í Nýheimum í dag en þar var haldið ungmennaþing. Þátttakendur á þinginu voru nemendur í efstu bekkjum grunnskólans og nemendur FAS.

Dagskráin hófst á Nýtorgi þar sem farið var yfir það hvað væri framundan. Bæjarstjórinn okkar ávarpaði hópinn og bað menn að hafa í huga í vinnunni framundan að það sé mikilvægt að raddir ungmenna heyrist því það er jú hópurinn sem tekur við af okkur. Því næst var skipt í hópa og ákveðin málefni rædd. Hver hópur hafði ritara sem skráði niður það markverðasta í umræðunum. Það verður síðan unnið með þær upplýsingar og þær notaðar m.a. til að breyta og bæta samfélagið.

Í lok dagsins var svo öllum boðið upp á pizzu sem var gerð góð skil.

FAS með innlegg á norrænu heimsminjaráðstefnunni

Þessa vikuna er mikið um að vera á Kirkjubæjarklaustri. Þar ber hæst norræn heimsminjaráðstefna sem haldin er í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs við Sönghól. Gestir á ráðstefnunni eru vel yfir hundrað og koma víða að. Þema ráðstefnunnar í ár er Samfélag og samvinna – í takt við náttúruna. Það er stefna þjóðgarðsins að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur jafnframt áherslu á staðbundna menningu. Á ráðstefnunni eru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar úr röðum fagfólks og sérfræðinga.

FAS hefur lengi átt mikil og góð samskipti við þjóðgarðinn. Það á við bæði með fræðslu af hálfu þjóðgarðsins og einnig hefur verið auðsótt að koma með nemendur í heimsókn. Það gildir bæði fyrir íslenska nemendur og eins nemendur í erlendum samstarfsverkefnum. Með tilkomu fjallamennskunámsins í FAS hafa samskipti skólans og þjóðgarðsins aukist enn því mörg af námskeiðum í fjallamennsku fara fram innan þjóðgarðsins.

Okkur í FAS þótti það mikill heiður að vera beðin um að vera með málstofu á ráðstefnunni og fá að kynna skólann, hvernig samstarfinu hefur verið háttað í gegnum tíðina og hver ávinningurinn af samstarfinu er. Það voru þær Hjördís og Svanhvít Helga sem sáu um málstofuna fyrir FAS og mættu ríflega 40 gestir til að hlýða á erindi þeirra. Eftir kynninguna voru umræður og sýndu gestirnir sérstakan áhuga á náminu í fjallamennsku og hvernig það eflir bæði samfélagið og samvinnuna við þjóðgarðinn. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru fengnar af fésbókarsíðu Rannsóknarsetursins á Hornafirði.