Í gær voru veittir styrkir úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta HÍ en þeir sem hljóta styrk þar hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Auk árangurs á stúdentsprófi er litið til annarra þátta, s.s. þátttöku í félagsstörfum, íþróttum eða öðru því sem er eftirtektarvert. Að þessu sinni fékk sjóðurinn 76 umsóknir en 31 hlaut styrkinn.
Það er okkur í FAS mikið gleðiefni að á meðal styrkþega í ár er Anna Lára Grétarsdóttir sem útskrifaðist í vor frá okkur í FAS. Í umsögn frá Afreks- og hvatningasjóði stúdenta HÍ kemur eftirfarandi fram um Önnu Láru:
Anna Lára Grétarsdóttir brautskráðist frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu í vor og
var dúx skólans með hreina tíu. Hún hlaut fjölmargar viðurkenningar við útskrift, þar á meðal
Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Anna Lára sigraði í þýskuþraut framhaldsskólanna í ár og þá er
hún í Fókus sigursveit Músíkiltilrauna í fyrra, Fókus, auk þess sem hún var valin
hljómborðsleikari Músíktilrauna. Anna Lára var auk þess forseti Nemendafélags FAS á lokaári
sínu. Anna Lára hefur hafið nám í lífeindafræði.
Við óskum Önnu Láru innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni sem og styrkþegum öllum alls hins besta. Nánar má lesa um styrkveitinguna hér og á myndinni sést Anna Lára taka við verðlaununum úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors HÍ.