Birkiskógurinn á Skeiðarársandi

14.sep.2020

Þeir sem eiga leið um Skeiðarársand geta allir orðið vitni að miklum breytingum á náttúrunni. Mest áberandi eru birkitrén sem mynda nú samfellda breiðu um miðbik sandsins. Í FAS viljum við gjarnan að nemendur verði meðvitaðir um umhverfi sitt og kynnist um leið vísindalegum vinnubrögðum. Fimmtudaginn 27. ágúst síðastliðinn fóru þrettán nemendur í FAS sem allir stunda nám í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ í sína árlegu rannsóknarferð á Skeiðarársand. Skólinn á þar fimm 25 m2 gróðurreiti og frá árinu 2009 hefur verið farið með nemendahópa á sandinn til að fylgjast með framvindu gróðursins. Veður var eindæma gott; logn, sól og hiti 11 gráður.

Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni. Meðal þess sem er skoðað er gróður innan hvers reits, hæð trjáa og ársvöxtur. Þá er horft eftir ummerkjum um beit og ágang skordýra.

Við höfum oft séð meiri breytingar á vexti trjánna á milli ára. Mörg tré stækka lítið en innan hvers reits má þó finna plöntur sem hækka jafnt og þétt og eru einnig farnar að mynda rekla.

Þegar farið er á milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau sem eru innan reita FAS. Í nokkur ár hefur verið fylgst sérstaklega með tveimur trjám. Annað er staðsett ofan í jökulkeri og hefur einhvern tímann brotnað að hluta. Það er greinilegt að skemmdin hamlar vexti því það tré hækkar lítið á milli ára og mælist alltaf rétt yfir 3,30 m. Hitt staka tréð sem er mælt vex ágætlega og er hæð þess nú 3,53 metrar og hefur hækkar um tæpa 30 cm á síðustu tveimur árum.

Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/

En í þessari ferð var ekki bara fylgst með gróðurreitunum. Vegna COVID-19 hefur þurft að breyta frá upphaflegu skipulagi í skólanum. Það varðar ekki hvað síst erlent samstarf þar sem við bæði fáum gesti eða sendum nemendur okkar erlendis. Á þessari önn verður ekkert um slíkar ferðir en verkefnin þurfa engu að síður að halda áfram. Í ferð okkar í síðustu viku var prófað að „streyma“ frá því sem var gert og það gekk ágætlega. Þessi tilraun var því ágætis undirbúningar fyrir samstarfsverkefni á milli Finnlands, Noregs og Íslands sem er nýfarið af stað. Þá er ráðgert að nýta þessa tækni til að ljúka ADVENT verkefni sem hefur staðið yfir í þrjú ár.

Þá komu til okkar á sandinn tökufólk frá kvikmyndafyrirtæki sem er að vinna að heimildamynd um birki. Þau fengu að fylgjast með vinnunni á sandinum. Sá þáttur verður sýndur á RUV í fyllingu tímans.

Eyjólfur Guðmundsson
Hjördís Skírnisdóttir
Kristín Hermannsdóttir

[modula id=“9870″]

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...