Gróðurreitanna á Skeiðarársandi vitjað

27.ágú.2020

Í dag var komið að árlegri ferð á Skeiðarársand þar sem er verið að fylgjast með gróðurframvindu. FAS á þar fimm gróðurreiti og er það verkefni nemenda í inngangsáfanga að náttúruvísindum að fara og skoða reitina. Það þarf að viðhafa ýmis konar mælingar og mikilvægt er að allir vandi sig sem best. Allar upplýsingar eru skráðar niður og teknar með heim. Þetta verkefni er mikilvægur liður í því að kenna nemendum að vinna að rannsóknum og tileinka sér öguð vinnubrögð svo allar mælingar verði sem nákvæmastar.

Í ferðinni í dag var þó ekki bara verið að vinna að náttúruskoðun. Vegna COVID hefur skólinn þurft að bregðast við ýmis konar samstarfsverkefnum þar sem nemendur og/eða kennarar áttu að ferðast. Til  að halda þessum verkefnum gangandi þarf að finna nýjar leiðir. Þannig var í dag verið að prófa að streyma frá vinnunni á sandinum og gekk það ljómandi vel. Þá komu til móts við okkur fólk sem vinnur að gerð heimildamyndar um skóga á Íslandi og fengu að taka upp frá vinnu okkar á sandinum. Sú mynd verður sýnd á RUV þegar hún er tilbúin.

Vinnan í dag gekk ljómandi vel og allir stóðu sig með mikilli prýði. Næstu daga verður svo unnið úr niðurstöðum og munum við greina nánar frá þeim þegar þær liggja fyrir.

Aðrar fréttir

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og...

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn. Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga...

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

Fyrir margt löngu var margs konar samstarf á milli framhaldsskólanna á Austulandi. Þar á meðal voru Austfirsku Ólympíuleikarnir þar sem nemendur skólanna hittust og áttu góðar stundir saman í alls konar leikjum. Þessi viðburður lagðist af fyrir mörgum árum en það...