Á dögunum hafði Haukur Þorvaldsson samband við forráðamenn nemendafélagsins með fyrirspurn um hvort einhverjir í FAS hefðu áhuga á því að koma í Ekru og vera með kennslu á Ipad og önnur snjalltæki. Nemendaráði fannst þetta ljómandi góð hugmynd og hafist var handa við að leita að hentugum dagsetningum.
Í gær, mánudag var komið að fyrsta tímanum og mættu tíu eldri borgarar í Ekru. Frá FAS fóru að þessu sinni þær Eydís Arna, Ingunn Ósk og Íris Mist. Þær eru allar í nemendaráði og ráðið ákvað að hafa umsjón með námskeiðinu. Kunnátta þátttakenda er mjög mismunandi. Sumir kunna mikið á meðan aðrir eru að stíga fyrstu skrefin. Stelpurnar ákváðu að ganga á milli borða og aðstoða hvern einn og einn með þau atriði sem átti að ná tökum á.
Þetta var fyrsti tíminn af sex þar sem nemendur úr FAS koma til að leiðbeina þeim sem þurfa á að halda. Stelpunum fannst það bæði skemmtilegt og gefandi að eiga stund með eldri borgurum. Þetta er sjálfboðastarf hjá nemendum FAS og frábært að sjá kynslóðirnar tengjast á þennan hátt. Næsti tími í Ekru verður á miðvikudag 23. október klukkan 16:15 og þeir sem vilja koma á námskeiðið geta haft samband við Hauk.
[modula id=“9793″]