
Flokkunartunnur í FAS.
FAS tekur nú þátt í verkefninu Skólar á grænni grein og þema skólaársins er neysla. Í síðustu viku var stofnuð Umhverfisnefnd FAS en í henni eru fulltrúar nemenda, kennara og annarra starfsmanna. Í nefndinni eru níu manns og hún heldur utan um og skipuleggur starfið.
Í þessari viku fer fram neyslukönnun meðal allra í FAS og gengu fulltrúar nemenda í stofur í morgun og dreifðu eyðublöðum þar sem á að skrá ferðir vikunnar og matarneyslu. Í lok vikunnar verður blöðunum safnað saman og unnið úr gögnunum.
Auk þess að skoða ferðir og matarneyslu er úrgangur flokkaður á sérstakan hátt í þessari viku. Í lok vikunnar verður flokkað, talið og vigtað allt sem viðkemur matarneyslu í FAS. Markmiðið með þessu hvoru tveggja er að fá mat á stöðunni og sem síðan verður nýtt til að bæta um betur.
Við ætlumst til að allir leggi sig fram og vandi til verka í þessari viku.