Dagana 10. – 13. september komu nemendur í fjallamennskunámi FAS saman og núna var á dagskránni klettaklifurnámskeið. Námskeiðið var haldið á Höfn og á klifursvæðinu Hnappavöllum í Öræfum þar sem var farið í þriggja daga tjaldferð. Námskeiðið var það fyrra af tveimur þar sem áherslan er á að koma nemendum af stað í klettaklifri og öllu sem því tengist. Til dæmis að kynnast búnaði, hnútum, klettaklifurtækni og tjaldlífinu á Hnappavöllum. Námskeiðið er að mestu verklegt og lögð er áhersla að skoða nærumhverfið með tilliti til klettaklifurs. Á Höfn er stutt í sum bestu klifursvæði landsins og er bærinn því tilvalinn fyrir klifrara að alast upp og búa.
Á fyrsta degi komu nemendur fimm talsins og kennari saman í húsnæði skólans. Við byrjuðum daginn á að horfa á myndbönd til að tengjast menningunni í kringum klettaklifur og að fara yfir nauðsynlegan búnað og grunnatriði. Ekki var þó setið lengi á skólabekknum því strax fyrir hádegi vorum við svo heppin að fá að nota lítinn klifurvegg í íþróttahúsinu á Höfn. Allir fengu úthlutað búnaði sem samanstendur af klettaklifurskóm, klifurbelti og nokkrum karabínum og sérhæfðum fjallaklifurbúnaði. Veggurinn var prófaður og nemendur spreyttu sig í að klifra og tryggja hvern annan.
Þá var komið að stóru útilegunni. Mikilvægt er þegar stunda á klettaklifur að veður sé þurrt, og eftir vafasamar spár fram að námskeiði þá virtust veðurguðirnir ætla að vera okkur hliðhollir. Á miðvikudagsmorgun voru allir mættir á bílaplan skólans með útilegu- og klifurbúnað og lagt var á stað á Hnappavelli. Ferðin gekk vel og eftir uppsetningu á tjöldum var farið að klifra. Farið var í Hádegishamar og hafist handa. Þann dag náðum við að klifra fjórar klifurleiðir og læra fullt af tækni. Leiðirnar sem klifraðar voru; Nýfundnaland 5.5, Hey Kanína 5.8, Töfraflautan 5.6 og Freðamýra Jói 5.8.
Kvöldið fór í almenna spilamennsku eftir að hafa borðað æðislegan kvöldverð grillaðan á staðnum, en einn nemandinn gerðist svo góður að koma með grillið sitt. Enn bættist í hópinn og við fengum annan klifrara frá Höfn til að slást í hópinn, en hann hafði klárað þetta námskeið árinu áður en vildi klifra meira ?
Næsta dag vöknuðum við snemma því veðurspáin var mjög góð fyrripartinn en tvísýnni seinnipartinn. Labbað var í Þorgeirsrétt eystri og nemendum skipt í þrjá hópa. Hver hópur fékk úthlutaðri einni leið og svo var skipt á milli og mismunandi tækni æfð. Nemendur stóðu sig mjög vel og gátu lært af styrkleikum hvers annars. Á þessum degi æfðu nemendur sig mikið en hlupu þó í skjól á meðan rigningarskúr gekk yfir. Eftir dembuna var klifrað fram á kvöld og mikill þróttur var í hópnum.
Daginn eftir sem jafnframt var síðasti dagurinn var klifrað í Miðskjóli í frábæru veðri og dagurinn svo endaður í Káraskjóli sem er húsnæði björgunarfélagsins í Öræfum þar sem búið er að koma upp góðri klifuraðstöðu. Í ferðinni voru samtals voru klifraðar 10 leiðir, sigið niður tvo veggi og ein stór sigæfing.
Námskeiðið gekk mjög vel og veðrið var gott, hópurinn var mjög áhugasamur og hlökkum við til að fara í klifurferð tvö eftir tæpa viku. Kennari á námskeiðinu var Magnús Arturo Batista.
[modula id=“9787″]