Landvarðanám FAS

02.maí.2025

Í byrjun apríl lauk áfanga í landvörslu FAS í blíðskaparveðri í Skaftafelli. Landvarðanámskeið hefur lengi verið námskeið sem skólastjórnendum í FAS hefur langað til að bæta við námsbrautirnar í fjallamennsku en það tókst síðasta haust og nú hefur FAS leyfi til að bjóða upp á sjálfstæðan áfanga í landvörslu. Áfanginn stóð öllum nemendum fjallamennskubrautanna til boða en einnig almenningi. Nám í landvörslu smellpassar inn í námsframboð FAS og fjallamennskubrautirnar enda margir sameiginlegir snertifletir milli leiðsagnar og landvörslu. FAS og Vatnajökulsþjóðgarður hafa lengi unnið náið saman enda er þjóðgarðurinn kennslustofa fjallamennskunámsins og gott samstarf lykill að velgengni námsins. Með tilkomu nýs áfanga í landvörslu innan skólans, varð til enn betri samstarfsvettvangur við þjóðgarðinn.

Íris Ragnarsdóttir Pedersen hafði umsjón með náminu og sá um kennslu og að stilla saman sérfræðingum í bóklegum hluta námsins og hún fékk t.d. Hrafnhildi Hannesdóttur hjá Veðurstofu Íslands til að halda erindi um jökla- og loftslagsbreytingar og Þorvarð Árnason hjá rannsóknarsetri HÍ á Hornafirði, til að halda erindi um sjálfbærni og þolmörk á ferðamannastöðum. Bóklega námið stóð frá miðjum janúar til lok mars og verklegi hluti námsins fór fram dagana 3. – 7. apríl á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í verklegu lotunni var Ragnar Frank Kristjánsson aðstoðarkennari, en hann hefur áratugareynslu af náttúruvernd, kennslu, stígagerð og leiðsögn en víðtæk þekking hans var mjög dýrmæt í kennslunni. Þjóðgarðsverðir og sérfræðingar hjá Vatnajökulsþjóðgarði komu víða að bóklegu kennslunni og héldu t.d. erindi um öryggismál, stjórnsýslu, gestastofur og náttúrutúlkun. Í verklegu lotunni var virkilega skemmtilegt að hitta þjóðgarðsverði á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og landverði á svæðunum en þau tóku þátt í kennslunni alla daga.  

Við vörðum fjórum dögum í Skaftafelli og einum á Jökulsárlóni, en starfsstöðvarnar eru mjög ólíkar og því lærdómsríkt að sjá fjölbreytnina í vinnulagi og útfærslum. Á námskeiðinu fengu nemendur m.a. sýnikennslu í náttúrutúlkun og leiðsögn, þeir kynntust fjölbreyttum útfærslum í stígagerð og fengu tækifæri til að æfa handtökin við raunaðstæður, bæði við Fjallsárlón og í Skaftafelli. Á lokadegi námskeiðsins leiddu nemendur sína eigin fræðslugöngu í smærri hópum. Hér létu nemendur ljós sitt skína og stóðu sig frábærlega. 

Veðrið lék við okkur alla daga en við hjá FAS teljum það mikið heillaspor að geta boðið upp á nám í landvörslu undir Vatnajökli, í faðmi þjóðgarðsins. Við þökkum öllum sem komu að kennslu í áfanganum kærlega fyrir vel unnin störf.  

Aðrar fréttir

Hájöklaferð í fjallamennskunáminu

Hájöklaferð í fjallamennskunáminu

Áfanginn hájöklaferðamennska í grunnnámi fjallamennskubrautarinnar fór fram dagana 26. apríl til 1. maí á Öræfajökli. Ákveðið var að fara aðeins aðra leið en hefur verið farin undanfarin ár og lagt af stað upp Svínafellið vestanvert, gengið upp í gegnum Skörð og þaðan...

Vetrarferðamennska að Fjallabaki

Vetrarferðamennska að Fjallabaki

Frábærum fimm daga vetrarferðamennskuáfanga með Fjallamennskunámi FAS lauk nýverið þar sem við lögðum leið okkar á Fjallabak með viðkomu í Landmannalaugum. Ferðin var farin á ferðaskíðum en þrátt fyrir snjóleysi fengum við fínasta veður til kennslu. Að kenna þennan...

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og...