Áfanginn hájöklaferðamennska í grunnnámi fjallamennskubrautarinnar fór fram dagana 26. apríl til 1. maí á Öræfajökli. Ákveðið var að fara aðeins aðra leið en hefur verið farin undanfarin ár og lagt af stað upp Svínafellið vestanvert, gengið upp í gegnum Skörð og þaðan niður í Hvannadal bak við Svínafell. Úr Hvannadal lá leiðin svo upp á Öræfajökul þar sem var tjaldað nálægt vesturhlíð Hvannadalshnjúks. Á öðrum degi ferðarinnar fór hópurinn í ferðalag út frá tjaldsvæðinu upp á Hvannadalshnjúk. Mjög lítið skyggni var þennan dag sem eru bestu aðstæður sem hægt er að fá til að æfa rötun með rötunartæki og áttavita. Vegna veðurs sem átti að koma á fjórða degi ferðarinnar fórum við niður þriðja daginn eftir tvær nætur á hájöklinum. Þann dag var byrjað á að æfa sprungubjörgun í snjó áður en leiðin lá niður Virkisjökul. Síðasti dagur áfangans var nýttur í að fara betur yfir mismunandi aðferðir sprungubjörgunar í snjó á Svínafellsjökli þar sem hægt er að líkja eftir aðstæðum uppi á hájökli þrátt fyrir að snjóinn vanti. Nemendur fengu einnig að æfa sig í að koma sér sjálf upp úr sprungu með því að júmma upp línuna og yfir hnúta. Áfanginn gekk vel og nemendahópurinn er orðin sterk og náin liðsheild sem leysir svona stór verkefni með mikilli prýði.
Kennarar í áfanganum voru Árni Stefán Haldorsen, Íris Ragnarsdóttir Pedersen, Ólafur Þór Kristinsson og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.