Dagana 3. – 8. mars fór fram námskeiðið Skíðaferð 2. Námskeiðið var keyrt í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga eins og Fjallaskíði 1 sem haldið var fyrr í vetur. Á námskeiðinu var lögð mikil áhersla á skíðatækni og að nemendur yrðu öruggir á skíðum, auk þess sem nemendur kynntust gönguskíðum.
Fyrsti og seinasti dagur námskeiðsins fóru í akstur milli Hafnar og Ólafsfjarðar. Hópurinn hafði aðsetur í sumarbústað í Ólafsfirði og kennslan hófst yfirleitt á fyrirlestrum og öðrum verkefnum í nágrenni við bústaðinn fyrir hádegi og síðan skellti hópurinn sér á skíði á og við skíðasvæðið á Siglufirði eftir hádegið, að undanskildum einum degi þar sem þau lærðu á gönguskíði á gönguskíðasvæðinu í nágrenni við MTR á Ólafsfirði.
Fyrsta kennsludaginn var farið yfir skíðatækni og fleira á skíðasvæðinu á Siglufirði. Þar fengu allir eitthvað við sitt hæfi, byrjendur sem og lengra komnir. Dagurinn eftir var helgaður snjóflóðapælingum og félagabjörgun úr snjóflóði. Þriðja daginn lærðu nemendur á gönguskíði og fjórði og seinasti kennsludagurinn var helgaður því að skíða sem mest og þeir sem treystu sér nýttu fjallaskíðabúnaðinn og fóru utan brautar í nágrenni við skíðavæðið.
Það voru svo þreyttir en ánægðir nemendur sem komu í FAS að lokinni sex daga ferð. Ferðin gekk í heild sinni mjög vel og aðstæður fyrir norðan til fyrirmyndar fyrir skíðakennslu.
Kennarar námskeiðsins voru Sólveig Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Guillaume Kollibay og tóku þau meðfylgjandi myndir. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér
[modula id=“9776″]