Í þessari viku voru fjallamennskunemarnir í Jöklaferð 2. Farið var í Öræfin og gist fjórar nætur í svefnpokagistingu í Svínafelli. Hópurinn fékk að finna fyrir vetrinum og var veður heldur óstöðugt miðað við fyrri ferðir.
Markmið Jöklaferðar 2 er að fara yfir sprungubjörgun á skriðjökli og hájökli, ferðast um sprungusvæði á hájökli og læra um íshella og íshellaferðir.
Fyrsta daginn var brunað frá Höfn og farið á Falljökul. Á þriðjudag heilsaði sterk norðaustanátt nemendum og ekkert veður var til jöklaferða. Þann dag varð því að nýta í Svínafelli. Nemendur æfðu sig að ganga í línu á túnunum og að setja upp björgunarkerfi við húsið. Ágætlega rættist úr deginum þrátt fyrir að um ímyndaðar aðstæður væri að ræða, nemendurnir komast svo í alvöru aðstæður næsta vor þegar farið verður hærra á jöklana.
Á degi 3 fór hópurinn í ýmsar tækniæfngar á Falljökli. Dagur 4 var svo helgaður íshellum og fór hópurinn með Einari Rúnari Sigurðssyni í hinn svokallaða „Treasure Beach“ íshelli við Jökulsárlón. Eins og flestir kannski vita er Einar einn mesti sérfæðingur landsins í íshellaferðum og frumkvöðull á því sviði.
Á degi 5 var stefnan sett á ísklifur, en fyrri part dags var austan átt og mikil rigning þannig brugðið var frá því plani og farið yfir aðra hluti í staðinn.
Jöklaferð 2 er sjötta og seinasta verklega námskeið fjallamennskunámsins á þessari önn. Nú taka við bókleg námskeið hjá nemendunum, sem kennd eru í gegnum kennsluvefinn. Næsta verklega námskeið er 3 daga námskeið í Skyndihjálp í óbyggðum og næsta fjallaferð, er í fyrstu vikunni í febrúar.
Kennari í Jöklaferð 2 var Sigurður Ragnarsson.
Þeir sem vilja sjá fleiri myndir úr ferðinni er bent á fésbókarsíðu fjallanámsins
[modula id=“9767″]