Á síðasta skólaári var unnið að umsókn til Nordplus Junior áætlunarinnar með skóla í Faarevejle í Danmörku. Í vor var ljóst að umsóknin hefði hlotið samþykki og verkefnið myndi standa yfir skólaárið 2018 – 2019. Danski skólinn er svokallaður „efterskole“ en þá geta nemendur tekið eitt ár til viðbótar hefðbundinni skólaskyldu. Það er svolítið misjafnt hversu margir nemendur sækja um skólavist á hverju ári en í umsókninni var gert ráð fyrir að 25 nemendur væru í hvoru landi. Aðsókn í skólann ytra var með mesta móti í ár og nú eru 50 nemendur í hópnum sem kemur að samstarfsverkefninu.
Áherslur í verkefninu eru tvíþættar. Fyrir áramót verður unnið að verkefnum sem tengjast sögu Íslands og Danmerkur. Eftir áramót verður sjónum hins vegar beint að Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem ástand sjávar verður sérstaklega skoðað. Gert er ráð fyrir að vinna bæði á dönsku og ensku.
Síðasta dag októbermánaðar heldur íslenski hópurinn til Danmerkur og mun dvelja ytra í viku. Þar mun hópurinn kynna Ísland og segja frá samskiptum Íslands og Danmerkur allt fram til þess tíma sem Ísland varð lýðveldi 1944. Fram að ferð undirbúa nemendur þessar kynningar. Að auki vinna báðir hópar að ýmsum verkefnum, farið verður á söfn og slóðir forfeðranna skoðaðar. Íslenski hópurinn mun búa hluta tímans í skólanum og hluta inni á heimilum félaga sinna.
Gert er ráð fyrir að danski hópurinn endurgjaldi heimsóknina í lok mars á næsta ári. Líkt og oft áður verður afrakstur verkefnisins settur á vefsíðu og ber hún heitið En god nabo er guld værd.