Eflaust muna margir eftir því að meistaraflokkur Sindra stóð sig frábærlega á síðasta leiktímabili og spilar í vetur í 1. deild og bíða margir spenntir eftir því að fylgjast með liðinu í vetur.
Í síðustu viku var gerður samningur á milli Körfuknattleiksdeildar Sindra og FAS sem kveður á um að heimaleikjum verði streymt á netið en þá verður hægt að fylgjast með þeim í beinni útsendingu. Samningurinn gildir til vors 2019. Einnig er ráðgert að taka viðtöl við leikmenn og aðra í tengslum við leikina. Sindri sér um að útvega þann búnað sem þarf til slíkra sýninga. Nemendur í kvikmyndagerð í FAS munu annast streymið og nemendur í fjölmiðlafræði og kvikmyndagerð taka viðtölin og annast eftirvinnslu.
Fyrsti heimaleikur Sindra verður 5. október og þá verður vonandi allt til reiðu svo hægt verði að sýna leikinn. Að sjálfsögðu óskum við meistaraflokki Sindra góðs gengis í vetur.