Gróðurreitir FAS á Skeiðarársandi

20.sep.2018

„Skeiðarársandsgengið 2018“

Mánudaginn 29. ágúst síðastliðinn fóru sautján nemendur í FAS sem stunda nám í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ í árlega rannsóknarferð á Skeiðarársand. Þar eru fimm 25 m2 gróðurreitir á vegum FAS og var ferðin núna tíunda sinnar tegundar. Veður var eindæma gott; logn, sól og hiti um 12 gráður.

Megintilgangurinn með ferðinni er að fylgjast með breytingum á sandinum en einnig að fá nemendur til að skoða náttúruna í kringum sig og FAS hefur alla tíð lagt á það áherslu að gera nemendur meðvitaða um umhverfi sitt. Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni.

Hæð valinna plantna í einum reitanna, samanburður á hæðinni árin 2009, 2014 og 2018. Þær hækka allar á milli ára, nema ein þeirra sem minnkar á milli áranna 2014 og 2018. Líkleg skýring á því að ein plantan lækkar gæti verið beit.

Oft hafa  sést meiri breytingar á milli ára en núna. Reyndar var töluvert um nýjar plöntur í reitunum en þær eru enn svo litlar að þær voru ekki mældar sérstaklega. Til að komast í þann hóp að fylgst sé með plöntum árlega þurfa þær að hafa náð a.m.k. 10 cm hæð.

Mælingar á hæð einnar plöntu á Skeiðarársandi, árin 2009-2018. Hún hefur hækkað um 71 cm á 10 árum, eða 7,1 cm á ári.

Þegar farið er að milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau innan reita FAS. Núna var ákveðið að fylgjast sérstaklega með þremur stórum trjám, tvö þeirra eru ofan í jökulkeri og eitt ekki langt frá gömlu réttinni á sandinum. Stærsta tréð er annað tréð í jökulkerinu og mældist hæð þess 3,32 metrar. Það tré hefur þó brotnað að hluta og óvíst hvaða áhrif það mun hafa. Staka tréð fylgir fast á eftir en hæð þess er 3,24 m.

Reitur 1 hjá FAS.

Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum.  Það fer vel á því að enda á lokaorðum í samantekt frá einum hópnum:

„Okkur þótti þessi ferð vera mjög fræðandi og skemmtileg. Það kom okkur á óvart hversu mikið af trjám var úti á sandinum miðað við það sem við sjáum frá veginum og óhætt er að fullyrða að allir í hópnum hafi lært mikið á ferðinni. Við áunnum okkur ný vinnubrögð, lærðum að lesa í umhverfið og urðum meðvitaðri um gróðurinn í nágrenni okkar. Út frá hópavinnunni spunnust síðan líflegar umræður, og lærðum við því ekki síst mikið af hverri annarri“.

Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/

Eyjólfur Guðmundsson
Hjördís Skírnisdóttir
Kristín Hermannsdótti

Aðrar fréttir

Landvarðanám í FAS

Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...

Jólamatur í FAS

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir...