Í hádeginu dag var boðið upp á nýbreytni í FAS en þá var nemendum, foreldrum og starfsfólki boðið upp á súpu á Nýtorgi. Þetta er liður í því að tengja betur saman heimili og skóla en um leið að gera nemendur að aðalatriðinu. Raðað var á borð á ákveðinn hátt en á hverju borði voru nemendur, fulltrúi foreldra og svo fulltrúi starfsmanna. Umræðuefnið í dag var vinna nemenda með námi en undanfarið hefur verið nokkuð um það rætt að íslensk ungmenni vinni mikið með námi sínu, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi.
Eftir spjall í dágóða stund skilaði síðan hver hópur stuttlega af sér munnlega. Það var margt forvitnilegt sem kom fram: margir nemendur eru í vinnu með skóla en þó mismikið og eins eru ástæðurnar mjög mismunandi. Einhverjir þurfa að sjá um sig sjálfir og verða að vinna á meðan aðrir stunda einungis vinnu um helgar eða í skólafríum. Það eru samt mjög margir sem vinna regulega með náminu. Til að þetta tvennt fari saman er mikilvægt að skipuleggja sig vel og gera ráð fyrir tíma fyrir heimanám en þó um leið að gera ráð fyrir að eiga tíma fyrir sig sjálfan til að stunda félagslíf eða hitta vinina og rækta sjálfan sig.
Í lok fundar voru foreldrar sérstaklega spurðir um árangur af fundi sem þessum og voru allir sammála að þetta væri bæði gaman og gagnlegt. Því má búast við að á hverri önn verði blásið til súpufundar til að eiga stund saman og ræða það sem skiptir máli hverju sinni.
Landvarðanám í FAS
Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...