Það er mikið um að vera tengt ferðaþjónustu á Hornafirði þessa vikuna og í dag tengist það sérstaklega inn í Nýheima en nú stendur yfir ráðstefna sem ber heitið Adventure Tourism – Innovation and Education. Það eru tvö verkefni sem eru í gangi í Nýheimum sem standa fyrir ráðstefnunni í dag. Annars vegar er það verkefnið slow adventure in nothern territories sem snýst um að fá ferðamanninn til að fara hægt yfir og njóta augnabliksins. Þar hefur Rannsóknasetur háskólans yfirumsjón og hins vegar verkefnið ADVENT sem stendur fyrir Adventure tourism in vocational education and training en þar er unnið að því með starfandi ferðaþjónustuaðilum að mennta fólk í greininni. Þar hefur FAS yfirumsjón ásamt Rannsóknasetri háskólans. Í báðum þessum verkefnum eru þátttakendur frá nokkrum löndum og það er því nokkuð alþjóðlegt yfirbragð á ráðstefnunni í dag. Bæði þessi verkefni tengjast og því var ákveðið að hafa sameiginlega ráðstefnu.
Sérstakur gestur á ráðstefnunni er frú Eliza Reid forsetafrú en hún er sérstakur sendiherra ferðaþjónustu og markmiða sjálfbærrar þróunar en markmiðið með því að hafa slíkan sendiherra er að talað sé fyrir framlagi ferðaþjónustu til sjálfbærrar þróunar og hvetja til þess að ferðaþjónusta og markmið sjálfbærrar þróunar verið innleidd að fullu í áætlanir þjóðlanda og svæða á heimsvísu.
Fyrir hádegi í dag verða stuttir fyrirlestrar en eftir hádegi kynningar á því sem þegar hefur verið gert í verkefnunum og svo hópavinna og umræður í lokin.
Það verður spennandi að fylgjast þróun og nýbreytni í ferðamálum á næstunni.
[modula id=“9748″]