Það var margt góðra gesta á Hornafirði í gær en verið var að undirrita tilnefningu um að Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins verði tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO. Það voru Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sem undirrituðu tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins.
Í morgun heimsótti menntamálaráðherra FAS áður en flogið var til Reykjavíkur. Hún skoðaði skólann og kynnti sér starfsemina í Nýheimum. Einnig var farið í Vöruhúsið og skoðað hvað er í gangi þar. Í kynningu um FAS var talað um hversu mikilvægt fjarnám er í starfi skólans, Fjarmenntaskólann, áhersluna á lista- og menningarnám, fjallamennskunám og vísindaferðir. Ráðherra fannst mjög áhugavert að þessi litli skóli skuli bjóða upp á jafn fjölbreytt nám og raun ber vitni.
Við hér í FAS er afar ánægð með að hún skyldi hafa gefið sér tíma til að líta inn og þökkum henni kærlega fyrir komuna.
Á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins er að finna meðfylgjandi frétt þar sem sagt frá heimsókn ráðherra í FAS.