Í þessari viku fer fram landskeppni í olíuleit en FAS hefur allt frá árinu 2003 tekið þátt í tölvuleiknum PetroChallenge þar sem leitað er að olíu. Tilgangurinn með leiknum er að kynna störf í tengslum við olíuiðnað og hefur leikurinn verið notaður til að kynna atvinnugreinina fyrir nýjum starfsmönnum í olíuiðnaði.
Í gær lærðu þátttakendur leikinn og í dag er svo aðalkeppnin. Í FAS eru tvö lið sem keppa og nokkur í FÍV sem er Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum.
Það er margt sem þátttakendur þurfa að læra. Í fyrsta lagi læra nemendur hvernig olía verður til. Í öðru lagi þarf að athuga hvernig hægt er að nálgast olíuna og vinna hana á sem hagkvæmastan hátt. Þá er mikilvægt að dreifa áhættunni og það er gert með því að stofna hlutafélög. Það er mikilvægt að taka allar ákvarðanir af skynsemi því fyrir þær eru gefin stig. Leikurinn fer fram á ensku og það eru mörg ný hugtök sem bætast við orðaforðann. Það má því sannarlega segja að hér fari fram þverfaglegt nám.
Það er til mikils að vinna því það lið sem stendur uppi sem sigurvegari í keppninni í dag tekur þátt í lokakeppni PetroChallenge sem fer fram í London. Að sjálfsögðu vonum við að okkar fólki gangi sem best.