Vímuefnaneysla ungmenna

11.okt.2017

Miklar breytingar eiga sér stað á unglingsárunum og má segja að um eitt mesta breytingaskeið sé að ræða á lífsleiðinni.   Auk líkamlegra breytinga verður sýn unglinga á lífið annað ásamt því að væntingar annara til þeirra breytist.

Samkvæmt lögum er óheimilt að selja, veita eða afhenda ungmennum undir 20 ára aldri áfengi. Þessi lög eru sett til þess að vernda heilsu ungs fólks.  Áfengisneyslu geta fylgt ýmis vandamál, félagsleg og persónuleg sem hafa áhrif á einstaklinginn sjálfan og þá sem að honum standa.  Á árunum til tvítugs og jafnvel lengur er mikill líkamlegur þroski í gangi m.a. í heila og taugakerfi en áfengisneysla á þessum árum hefur því mjög slæm áhrif á líf og þroska ungmenna.  Neysla áfengis getur skaðað ákveðnar heilastöðvar fyrir lífstíð og því mikilvægt að fresta neyslu ungmenna á áfengi og öðrum vímugjöfum eins lengi og hægt er.

En hvernig frestum við drykkju og vímuefnaneyslu ungmenna?

Sýnt hefur verið að verndandi þættir felast  t.d. í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum. Í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum gefst ungmennum tækifæri á að taka virkan þátt og við það eflist sjálfsálitið og sjálfsmyndin.  Þeir unglingar sem hafa sterka sjálfsmynd eru yfirleitt hugrakkir og þora að taka góðar ákvarðanir fyrir sig, þora að segja nei við hlutum sem þau vita að eru ekki góð fyrir þau.   Þrátt fyrir að reglur  gildi um hluti eins og áfengisneyslu þá berum við sjálf að lokum alltaf ábyrgð á ákvörðunum okkar og stöndum og föllum með þeim eins og öðrum ákvörðunum sem við kunnum að taka á lífsleiðinni.

Þeir unglingar sem stunda íþróttir eða líkamsþjálfun reglulega eru líklegri til að upplifa betri líðan en öðrum jafningjum og eru þar að auki ólíklegri til að neyta áfengis og annara vímuefna en jafningjar.  Þjálfarar og leiðbeinendur eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á ungmennin með því að leggja áherslu á forvarnir gegn vímuefnum en einnig með að sýna áhuga, gott fordæmi,  vera hvetjandi og sýna skilning. Íþróttafélögin gegna í raun mjög mikilvægu hlutverki í þessu sambandi og ættu að vera leiðandi í allri forvarnarvinnu.

Stuðningur foreldra er mjög mikilvægur og því meiri stuðning sem unglingar fá að heiman því ólíklegri eru þau til að neyta áfengis og vímuefna. Samvera unglinga við foreldra sína og fjölskyldur hefur verndandi áhrif og er mjög jákvæð. Verum ekki hrædd við að draga unglingana okkar með  út í gönguferðir, á kaffihús eða í bíltúr. Spilakvöld eru frábær samvera ásamt góðu spjalli. Gleymum ekki að við foreldrar erum fyrirmyndir og afstaða okkar skiptir máli.

Hreyfing og líkamleg þjálfun er mikilvæg fyrir alla en þátttaka í íþróttum tengist ekki bara líkamlegri heilsu heldur hefur sýnt sig að minnki líkur á þunglyndi, streitu og kvíða ásamt því að hafa áhrif á hegðun eins og minni neyslu á áfengi og fíkniefnum.

Unglingar eyða stórum hluta dagsins í skólanum og skólinn er því góður vettvangur fyrir forvarnir sem eiga við vímuefnaneyslu.  Gott samstarf milli heimila og skóla er mikilvægt til að styðja við vímuefnaforvarnir en einnig er samstarf við aðrar stofnanir samfélagsins nauðsynlegar og ber að nefna lögreglu og heilbrigðiskerfið í því samhengi.

Að þessu sögðu, langar mig að við tökum öll höndum saman og styðjum ungmennin okkar og sýnum þeim áhuga og virðingu. Við getum kannski gert lítið eitt og eitt en saman erum við öflugri. Það þarf nefnilega allt samfélagið að leggjast á eitt og það er trú mín að ef við gerum það munu þau vaxa og dafna sem best á þessu svo kallaða breytingarskeiði sem endar með fullorðinsárum.

Með þessari grein vil ég vekja athygli á vímuefnaneyslu ungmenna, forvörnum og skapa umræðugrundvöll fyrir okkur öll til að finna þessu málefni góðan farveg í allra þágu.

Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur
Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólans í A-Skaftafellssýslu.

Aðrar fréttir

Landvarðanám í FAS

Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...

Jólamatur í FAS

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir...