Á miðvikudag voru undirritaðir samningar milli Hótels Hafnar, FAS og þriggja starfsmanna hótelsins. Samningurinn er um starfsnám í framreiðslu og matreiðslu sem fer fram samhliða vinnu á hótelinu en er jafnframt nám í FAS sem heitir vinnustaðanám. Samkvæmt samningnum þurfa nemendur að vinna 300 klukkustundir á önninni og hluti af þeirri vinnu felst í að leysa verkefni og eiga samskipti við umsjónarmann námsins og samstarfsfólk á hótelinu. Fyrir þetta fá nemendur 15 einingar sem teljast inn í nám nemenda. Zophonías Torfason sér um námið af hálfu FAS og Fanney Björg Sveinsdóttir, hótelstjóri fyrir hönd hótelsins.
Um er að ræða þróunarverkefni sem hefur verið að mótast undafarna mánuði í samstarfi hótelsins og FAS sem vonandi er upphafið að frekara samstarfi og eflir um leið kennslu og þjálfun í þjónustugreinum á svæðinu.