Fyrir nokkru sögðum við frá því að nemendur á starfsbraut í FAS hefðu farið í heimsókn í rafmagnsdeild Skinneyjar-Þinganess. Síðustu vikur hafa tveir vinnustaðir bæst í hópinn.
Farið var í heimsókn til Gísla í Beinlínis en hann rekur byggingarfyrirtæki sem tekur að sér alls kyns smíðaverkefni. Fyrirtækið er með verkstæði á Víkurbrautinni og þangað var förinni heitið. Gísli tók á móti strákunum og fór yfir það helsta sem smiðir gera í sinni vinnu. Hann leyfði þeim síðan að spreyta sig á ýmsum verkefnum og prófa alls konar tól og tæki.
Í þessar viku var farið í heimsókn á lögreglustöðina. Þar tóku lögregluþjónarnir Grétar og Einar á móti strákunum. Þeir fóru yfir störf lögreglu á svæðinu og sýndu húsnæðið og alls konar búnað sem lögreglumenn nota í starfi sínu.
Strákarnir á starfsbrautinni eru mjög ánægðir með heimsóknirnar sem hefur verið farið í á önninni þar sem þeir hafa alls staðar fengið góðar móttökur og velvild. Við í FAS erum mjög þakklát fyrir að geta farið í heimsóknir sem þessar og um leið kynnt fjölbreytt störf í sveitarfélaginu. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá síðustu tveimur heimsóknunum.