Skyndihjálparnámskeið hjá fjallamennskunemendum

28.nóv.2024

Síðasta áfanganum hjá öðru árinu í fjallamennskunámi FAS lauk núna í lok nóvember. Áfanginn sem var kenndur á Höfn kallast Fyrsta hjálp í óbyggðum og er 8 daga fagnámskeið í fyrstu hjálp sem býr nemendur undir það að geta metið og sinnt bráðum tilfellum í óbyggðum og tekið ákvörðun um hvort um neyðarflutning sé að ræða.

Áfanginn er byggður upp af verklegum tilfellaæfingum, vinnustofum og fræðilegri kennslu. Að loknum áfanganum fengu nemendur heimild til að beita ákveðnum vinnureglum í óbyggðarsamhengi eins og að setja fólk aftur í axlarlið, hreinsa sár, bregðast við bráðaofnæmi og alvarlegu astmakasti með lyfjagjöf.

Kennslan fór bæði fram inni í kennslustofunni á Höfn og nágrenni en einnig var farin vettvangsferð í Hvanngil í Lóni þar sem reynt var á hæfni nemenda til að kljást við fjölbreytt verkefni eins og beinbrot og bráð veikindi en sögusvið æfingar var háfjallaskíðaferð. Nemendur enduðu áfangann á skriflegu og verklegu prófi sem allir stóðust með prýði.

Kennarar í áfanganum voru: Gunnar Agnar Vilhjálmsson og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.

Aðrar fréttir

Nemendur bjóða í kaffi

Nemendur bjóða í kaffi

Í morgun var komið að næsta sameiginlega kaffi á Nýtorgi og auðvitað mæltist það vel fyrir í húsinu. Að þessu sinni voru það nemendur sem sáu um veitingarnar en nutu aðstoðar Sigrúnar við að skera niður kökur. Margt var skrafað og allir gengu saddir og sælir frá...

Mikið um að vera í FAS

Mikið um að vera í FAS

Í þessari viku er margt um manninn í FAS en hér eru nemendur í heimsókn frá Finnlandi og Noregi. Þetta eru nemendur sem taka þátt í Nordplus samstarfsverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir. Allir þrír skólarnir í verkefninu eiga það sameiginlegt að vera í...