Í þessari viku er margt um manninn í FAS en hér eru nemendur í heimsókn frá Finnlandi og Noregi. Þetta eru nemendur sem taka þátt í Nordplus samstarfsverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir. Allir þrír skólarnir í verkefninu eiga það sameiginlegt að vera í fremur fámennum samfélögum en búa jafnframt yfir miklum möguleikum til að vera blómstrandi samfélög.
Hópurinn kom til landsins á laugardag og austur á Höfn á sunnudag. Á leiðinni var stoppað á nokkrum þekktum áningarstöðum. Í gær og í dag hafa nemendurnir fengið nokkrar kynningar sem tengjast verkefnum áfangans og einnig var farið í heimsókn í Skinney-Þinganes í gær til að fræðast um starfsemina og skoða fyrirtækið.
Núna er hafin hópavinna þar sem nemendur vinna ýmis verkefni sem tengjast svæðunum og þeim tækifærum sem þar eru. Hópurinn dvelur á Höfn fram yfir hádegi á fimmtudag en heldur því áleiðis til Keflavíkur þar sem gist er síðustu nóttina á Íslandi. Nánar er hægt að fylgjast með verkefnum hópsins á https://nr.fas.is/ – meðfylgjandi mynd var tekin á þaki Skaftafellsstofu en hópurinn kom þar við á leiðinni austur og fékk að snæða nestið sitt.