Skuggakosningar í Sveitarfélaginu Hornafirði

27.nóv.2024

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá mörgum að um næstu helgi á að kjósa til Alþingis. Allir þeir sem eru orðnir 18 ára og hafa íslenskt ríkisfang mega kjósa. Margir væntanlegir kjósendur eru þó farnir að velta fyrir sér hvar þeirra pólitísku áherslur liggi og myndu kjósa ef þeir mættu. Til að bregðast við þessu hefur nokkrum sinnum verið efnt til svonefndra skuggakosninga þar sem krakkar sem eru fæddir á bilinu 2006 – 2011 fá að kjósa.

Í dag stóðu fulltrúar í ungmennaráði sveitarfélagsins fyrir kynningarfundi í Nýheimum og var fundurinn fyrir nemendur í 8.  – 10. bekk grunnskólans og nemendur FAS. Þar mættu ýmist frambjóðendur eða fulltrúar flestra þeirra framboða sem bjóða fram til Alþingis að þessu sinni. Hvert framboð fékk 2 mínútur til að kynna sín helstu stefnumál og í lokin gafst fundargestum tækifæri til að spyrja spurninga. Fulltrúar framboða voru ýmist í sal eða á fjarfundi í Teams.

Skuggakosningarnar verða haldnar 28. og 29. nóvember og kjörstaðir verða þrír í sveitarfélaginu; þ.e. í Heppuskóla, FAS og í Þrykkjunni. Það eru fulltrúar ungmennaráðs sem sjá um framkvæmd kosninganna. Að sjálfsögðu hvetjum við alla nemendur til að kynna sér stefnumál flokkanna og kjósa í kjölfarið. Það verður spennandi að sjá úrslit skuggakosninganna.

Aðrar fréttir

Nemendur bjóða í kaffi

Nemendur bjóða í kaffi

Í morgun var komið að næsta sameiginlega kaffi á Nýtorgi og auðvitað mæltist það vel fyrir í húsinu. Að þessu sinni voru það nemendur sem sáu um veitingarnar en nutu aðstoðar Sigrúnar við að skera niður kökur. Margt var skrafað og allir gengu saddir og sælir frá...

Mikið um að vera í FAS

Mikið um að vera í FAS

Í þessari viku er margt um manninn í FAS en hér eru nemendur í heimsókn frá Finnlandi og Noregi. Þetta eru nemendur sem taka þátt í Nordplus samstarfsverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir. Allir þrír skólarnir í verkefninu eiga það sameiginlegt að vera í...