Afreksíþróttasvið Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) hefur farið vel af stað eftir breytingar sem tóku gildi í upphafi skólaársins. Með nýju fyrirkomulagi hefur verið lögð rík áhersla á að efla nemendur með fjölbreyttum æfingum og fræðslu sem styðja við þroska þeirra og framfarir, bæði innan vallar sem utan.
Nú eru tækniæfingar í boði fyrir þær íþróttagreinar sem eru kenndar á sviðinu, sem og styrktaræfingar til að bæta líkamlegt atgervi nemenda. Á þessari önn hafa nemendur einnig fengið fræðslu frá Haus hugarþjálfun, þar sem markmiðasetning hefur verið í brennidepli. Þessi nýju atriði hafa vakið mikla ánægju meðal nemenda, og segja margir þeirra að þau hafi hjálpað þeim að verða markvissari í sínum íþróttum.
Fjölgun nemenda á sviðinu hefur einnig verið jákvæð þróun og gefur til kynna að breytingarnar séu vel metnar. Eins og stendur eru iðkendur á sviðinu einungis í körfubolta og fótbolta, en framtíðarmarkmið sviðsins eru skýr; fjölga iðkendum og víkka úrval íþróttagreina.
Til að styrkja samstöðu og auðkenni sviðsins fengu allir iðkendur boli merka afreksíþróttasviðinu afhenta um miðjan nóvember, sem var einstaklega vel tekið. Á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur á afreksíþróttasviði FAS en þess má geta að tveir voru fjarverandi þegar myndin var tekin.
Á næstu önn er fyrirhugað að fara í heimsóknir og bæta við nýjum tækifærum fyrir nemendur til að efla sig enn frekar. Með skýra sýn og markvissa stefnu stefnir afreksíþróttasvið FAS á að bjóða nemendum tækifæri sem nýtast þeim í sinni íþrótt í heimabyggðinni.
Fylgist með – framtíðin hjá afreksíþróttasviði FAS er björt!