Síðustu vikur og mánuði hefur mikið verið í gangi varðandi fjallamennskunámið í FAS. Í upphafi skólaárs var staðan sú að námið var tryggt fram að áramótum en framhaldið óljóst. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarið sem margir hafa komið að, ekki síst fulltrúar sveitarfélagsins. Fyrsta markmiðið í þeirri vinnu var að hægt yrði að ljúka yfirstandandi skólaári með útskrift. Annað markmið og ekki síðra er að finna náminu farveg til lengri tíma þar sem hægt er að tryggja að námið verði áfram undir hatti Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.
Í síðustu viku bárust þau ánægjulegu tíðindi að það hefur verið gengið frá því að fjallamennskunámið heldur áfram á næstu vorönn og þeir nemendur sem hófu námið í haust munu útskrifast.
Framundan er vinna til að tryggja náminu farveg til framtíðar. Sú vinna byggir á því mikla og góða starfi sem kennarar námsins hafa unnið og mótað til að koma sem best til móts við þarfir og öryggi ferðamanna í krefjandi umhverfi.
Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn til að tryggja námið á þessu skólaári og vonumst eftir áframhaldandi stuðningi til að halda náminu til framtíðar innan FAS.