Það hefur lengi verið lögð áhersla á ýmis konar náttúruskoðun í FAS. Í marga áratugi var sérstaklega fylgst með skriðjöklum og reynt að mæla hvort þeir væru að ganga fram eða hopa. Flestar ferðirnar með nemendur voru að Heinabergsjökli. Þá var mæld fjarlægð frá ákveðnum punktum á landi að jökuljaðrinum sem lá í lóninu og þegar heim var komið var notast við aðferðir stærðfræðinnar til að reikna út fjarlægðir. Það voru tveir mælipunktar á jökulruðningunum fyrir framan Heinabergsjökul sem var stuðst við.
Við höfum ekki farið varhluta af breytingum á náttúrunni undanfarin ár sem má að stórum hluta rekja til loftslagsbreytinga. Þær breytingar sjást mjög greinilega á Heinabergsjökli. Árið 2017 höfðu orðið svo miklar breytingar að ekki var lengur hægt að styðjast við nyrðri mælipunktinn en enn var hægt að mæla við syðri mælipunktinn en þar hafði jökullinn virst fremur stöðugur.
Árið 2020 hlaut Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk að taka myndirnar. Í flugi yfir Heinabergsjökul kom í ljós að syðri hluti Heinabergsjökuls var ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur risavaxinn ísjaki.
Þessar miklu breytingar á umhverfinu hafa kallað á breytingar á ferðinni með nemendur FAS. Nú tölum við ekki lengur um jöklamælingaferð heldur náttúruskoðunarferð þar sem við erum sérstaklega að skoða landmótun jökla og hvernig megi „lesa“ í landið og sjá hvar jökullinn hefur verið og hvernig hann hefur mótað fjöllin í grennd við jökulinn. Það er líka margt annað að skoða, t.d. hvernig landið mótast af völdum veðrunar, hvaða bergtegundir eru á svæðinu og eins veltum við fyrir okkur gróðurframvindu á svæðinu og rifjum upp í leiðinni hugtök úr ferðinni okkar á Skeiðarársand í upphafi annar.
Ferðin í gær hófst við brúna yfir Heinabergsvötn. Auk nemenda í áfanganum INGA1NR05 voru nokkrir nemendur og kennarar af starfsbraut. Það eru alltaf nokkrir í hópnum sem hafa ekki komið á þetta svæði og vita því ekki af þessari brú eða að þarna hafi þjóðvegurinn legið eitt sinn. Frá brúnni gekk hópurinn inn að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er staldrað alloft við og lesið í landið. Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands var með í ferðinni en hann er manna fróðastur um jöklana á svæðinu. Hann fræddi hópinn um það sem fyrir augu bar. Við vorum t.d. að skoða árfarvegi, jökulruðninga, jökulkembu, landmótun jökla uppi í fjöllum, gróðurframvindu, veðrun og mismunandi grjót og hversu vel eða illa það veðrast. Frá lóninu lá síðan leiðin fram hjá gömlu mælingarpunktunum og á bílaplanið fyrir framan Heinabergslónið þar sem rútan beið eftir okkur.
Ferðin gekk ljómandi vel. Veður var eindæma gott og allir nutu útverunnar. Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina.