Skólastarf haustannarinnar hófst formlega í morgun þegar staðnemendur mættu. Lind skólameistari bauð alla velkomna og fór yfir nokkur mikilvæg atriði er varða komandi önn. Kristján áfangastjóri tók því næst við með nokkur orð. Í kjölfarið voru fundir með umsjónarkennurum. Eftir hádegi var stutt námskeið þar sem sérstaklega nýnemar voru aðstoðaðir við að komast inn í kerfi skólans.
Á morgun, miðvikudag verður kennt eftir svokallaðri hraðtöflu þar sem farið er yfir kennsluáætlanir og skipulag áfanga sem eru í boði á haustönninni. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá á fimmtudag. Bóksalan er líkt og verið hefur á bókasafninu í Nýheimum og opnaði í dag klukkan 13. Fjarnemendur ættu líka að hafa fengið póst í þeim áföngum sem þeir eru skráðir í.
Á morgun mæta líka nemendur í fjallamennsku í hús og þá má segja að skólastarf sé komið á fullt.
Það er gaman að sjá meira líf í Nýheimum og heyra skvaldur og skraf nemenda okkar.