Þessa vikuna höfum við haft góða gesti frá Póllandi í FAS. Það eru nemendur í samstarfsverkefninu „Your health is your wealth“ sem eru að endurgjalda heimsókn nemenda FAS frá því í lok síðustu annar. Hópurinn kom til Hafnar þann fyrsta apríl síðastliðinn.
Dagana sem hópurinn hefur staldrað við hefur verið nóg að gera. Það á við bæði um sameiginlega verkefnavinnu og eins að sýna gestunum okkar fallega landshorn. Helgin var notuð til að sýna gestunum landið og lífið í sveitinni og var m.a. farið á Stokksnes og á Jökulsárslón. Á leiðinni frá Jökulsárlóni var komið við á Þórbergssetri, í hesthúsinu í Lækjarhúsum og fjósinu í Flatey. Í hádeginu voru grillaðar pylsur í Hestgerði og litið í útihúsin þar.
Í þessari viku hefur hópurinn farið í nokkrar heimsóknir hér á Höfn. Þar má m.a. nefna skoðunarferð í Skinney – Þinganes, Gömlubúð, Slysavarnarhúsið og siglingu með lóðsbátunum. Þá hefur pólski hópurinn farið tvisvar í tíma til Huldu í Hornhúsið og tekið nokkrar núvitundaræfingar. Í gær var svo kennsla lögð niður í fáeina tíma og þá kynntu gestirnir land sitt og þjóð, allir nemendur skólans fóru í ratleik um bæinn og í hádeginu voru grillaðir hamborgarar.
Veðrið hefur að stærstum hluta verið ágætt og oft hefur landið skartað sínu fegursta. Gestirnir eiga varla til orð til að lýsa landinu okkar og margar myndir hafa verið teknar. Fréttir af hverjum degi hafa verið skrifaðar á heimsíðu verkefnisins http://health.fas.is/
Á morgun heldur hópurinn svo af stað áleiðis til Keflavíkur þar sem hann gistir áður en haldið er utan á laugardag. Gert er ráð fyrir að sýna hópnum bæði Gullfoss og Geysissvæðið og einnig Þingvelli.
Töluverð áhersla hefur verið lögð á erlent samstarf í FAS undanfarin ár og eiga margir fyrrum nemendur ágætar minningar um þátttöku í slíku verkefni. Þetta samstarf væri varla mögulegt á aðkomu samfélagsins og ekki má heldur gleyma hlut foreldra og fjölskyldna. Eru öllum hér með færðar bestu þakkir.
Landvarðanám í FAS
Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...