Evrópusamvinnuverkefni FAS valið sem fyrirmyndarverkefni Erasmus+

14.maí.2024

FAS hefur lengi verið þátttakandi í fjölbreyttri Evrópusamvinnu bæði í formi nemendaskipta- og námsefnisgerðarverkefna. Öll hafa þessi verkefni verið unnin í anda Evrópusamstarfs þar sem áhersla er á að auka víðsýni og þekkingu þátttakenda á aðstæðum og menningu samstarfsaðilanna og heimalöndum þeirra.

Á þessu ári eru 30 ár síðan EES samningurinn var undirritaður en hann veitti Íslandi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og aukin tækifæri til samstarfs í Evrópu. Í tilefni af þeim tímamótum bauð Rannís, Utanríkisráðuneytið, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og Sendinefnd ESB á Íslandi til afmælishátíðar miðvikudaginn 8. maí sl. Á þessari afmælishátíð sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands opnaði var góðum árangri Evrópusamvinnunnar fagnað með kynningu á nokkrum verkefnum sem metin voru sem fyrirmyndarverkefni. Námsefnisgerðarverkefnið ADVENT sem hannað var og stýrt af FAS var valið af Landsskrifstofu Erasmus+ sem fyrirmyndaverkefni og þáði FAS boðið. Hulda Laxdal Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT kynnti verkefnið og gaman er að geta þess að verkefni frá Nýheimum fékk einnig viðurkenningu og voru þær Hugrún Harpa Reynisdóttir og Kristín Vala Þrastardóttir á svæðinu að kynna sitt verkefni.

ADVENT sem er skammstöfun fyrir enska heiti verkefnisins, Adventure Tourism in Vocational Education and Training var þriggja ára verkefni sem stóð frá 2017 – 2020 þar sem unnið var með ferðaþjónustufyrirtækjum og stofnunum í ævintýraferðaþjónustu, skólum og rannsóknarstofnunum í Finnlandi, Skotlandi og á Íslandi. Gaman er að geta þess að við styrkveitingu úr sjóðum Erasmus+ fékk ADVENT lang hæsta styrk ársins 2017. Í ADVENT var unnið með nýstárlegri aðferð að námsefnisgerð þar sem starfandi aðilar í ævintýraferðaþjónustu mótuðu námsefni út frá greiningu sinni á þörf fyrir símenntun innan greinarinnar. Ferðaþjónustufyrirtæki hvers þátttökulands unnu, með aðstoð skólanna og rannsóknastofnananna að því að hanna og skipuleggja námskeið sem þeir byggðu á sinni eigin hæfni og sérhæfingu og ætlað var að mæta þörfum greinarinnar á hverjum stað. Alls voru unnin níu námskeið og voru þrjú þeirra prufukeyrð í hverju þátttökulandi verkefnisins. Námskeiðin voru þessi:

Finnland:
Fræðst um staðhætti
Vöruvæðing ævintýraupplifunar
Hvernig ævintýraferðamaður ert þú?

Ísland:
Ævintýri á jökli
Hið staðbundna; vöruvæðing og nýsköpun
Að segja sögur með snjallsímum

Skotland:
Sjálfsuppbygging í náttúrunni
Leiðsögn og túlkun
Túlkun strandsvæða

Hægt er að kynna sér ADVENT verkefnið á heimasíðu þess: https://adventureedu.eu/is

Síðustu ár hefur FAS litið svo á að tenging skólans út í samfélagið og atvinnulífið sé mikilvægur þáttur skólastarfsins og frá því að ADVENT verkefnið hófst hefur skólinn verið virkur þáttakandi í evrópskri námsefnisgerð sem styður við símenntun aðila á vinnumarkaði í álfunni. Það var því mikill heiður fyrir skólann að fá þessa gæðaviðurkenningu frá Rannís og Erasmus+. Þessi viðurkenning er ekki síst til komin vegna góðrar vinnu verkefnisstjórans á Íslandi. Til hamingu Hulda með flott verkefni.

 

 

 

 

Aðrar fréttir

Námsefni í Forestwell prufukeyrt

Námsefni í Forestwell prufukeyrt

Nemendur og kennarar í FAS prufukeyrðu námsefni Forestwell verkefnisins í vikunni. Þátttakendur voru tólf og fengu þeir stutta kynningu á verkefninu, tilgangi þess og afurðum. Þátttakendur kynntu sér heimasíðuna og námsumhverfið þar, m.a. AR umhverfið (Augmented...

Fréttir frá Vaala

Fréttir frá Vaala

Það hefur verið mikið um að vera hjá hópnum sem lagði af stað til Finnlands síðasta föstudag. Við komum á áfangastað á laugardagskvöldi og nemendur fóru þá til gestafjölskyldna sinna. Norðmennirnir í verkefninu komu svo til Vaala á sunnudagskvöldið. Þegar allir eru...

Á leið til Finnlands

Á leið til Finnlands

Um hádegisbil í dag lagði af stað hópur nemenda ásamt tveimur kennurum áleiðis til Vaala í Finnlandi. Þessi heimsókn er hluti af Nordplus Junior verkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra. Auk Finnlands og Íslands taka nemendur frá Noregi þátt í...