Það má segja að allt hafi verið á hvolfi í FAS í morgun. Ástæðan er sú að væntanleg útskriftarefni ákváðu að breyta hefðbundinni uppröðun í rýmum skólans og laga þar aðeins til. Þar var hugmyndflugið látið ráða og ekki verið að velta mikið hönnun innandyra fyrir sér.
Eins og undanfarin ár var væntanlegum útskriftarefnum boðið í morgunmat með starfsfólki skólans og átti hópurinn notalega stund saman og naut kræsinga hjá Sigrúnu. Flestir útskriftarnemendur taka þátt í að dimmitera en það er þó ekki algilt og svo er einnig að þessu sinni.
Síðasti kennsludagur annarinnar er á morgun, þriðjudag og eftir það taka lokamatsviðtöl við. Við óskum útskriftarnemendum sem og öllum öðrum nemendum góðs gengis í vinnunni framundan.