Klettaklifur í fjallamennskunámi FAS

06.maí.2024

Dagana 3. – 6. maí fór fram valáfangi í klettaklifri fyrir nemendur í grunnnámi fjallamennsku FAS. Að þessu sinni hittumst við á höfuðborgarsvæðinu og klifruðum á fjölbreyttum svæðum í kringum höfuðborgina en það er skemmtilegt fyrir nemendurna að kynnast fjölbreyttum klifursvæðum um allt land.

Áfanginn hófst í Miðgarði í Garðabæ en þar er frábær aðstaða til að stunda línuklifur innandyra. Þar var farið í leiðsluklifur, fallæfingar og ýmsa línuvinnu sem tengist klifri í fjölspannaleiðum. Á laugardeginum var haldið í Stardal í Mosfellsdal en svæðið má segja að sé paradís dótaklifrarans. Engir boltar eru á svæðinu og því þarf að tryggja allt með hefðbundnum tryggingum, hnetum og vinum. Þar fengu nemendur tækifæri til að leiða fjölspanna klifurleið, setja inn dótatryggingar, tryggja aðra klifrara upp til sín og reyna sig við hinar ýmsu leiðir. Á sunnudeginum héldum við út á Reykjanes í Háabjalla, þar er skjólsælt og gott að klifra og ekki skemmdi fyrir að nemendurnir mættu með grill og pyslur í hádegismat og grilluðu fyrir okkur öll. Svæðið hentar mjög vel fyrir byrjendur og er vel boltað sem gerir það að verkum að leiðsluklifrið er á færi allra. Við enduðum áfangann inni í Klifurhúsinu í Ármúla en þar fórum við yfir klifurtækni og æfingar sem gott er að vinna áfram með. Þökkum kærlega fyrir góðar móttökur þar.

Hópurinn stóð sig með prýði og mörg þeirra halda í lok mánaðarins til Lofoten í Noregi í klifurferð með FAS og eru því mjög spennt fyrir að æfa vel fyrir ferðina.  

Takk fyrir okkur, Dan, Íris og Ívar. 

 

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...