Vetrarferðamennska

05.apr.2024

Vetrarferðamennskuáfanginn í fjallamennskunáminu hófst með vinnustofu í Reykjavík þar sem nemendur fóru yfir leiðaval, hvernig á að ferðast án ummerkja og notkun á viðleigubúnaði í vetraraðstæðum. Daginn eftir var förinni heitir norður í fjögurra nátta tjaldferðalag með ferðaskíði og púlkur: Stefnan var tekin í Fjörður austur af Grenivík. Tjöldum var slegið upp eftir nokkra klukkutíma á skíðunum fyrsta daginn. Næsta morgun skíðaði hópurinn alla leið í skálann á Gili sem er á miðjum Flateyjarskaganum norðanverðum. Áhersla var lögð á rötun, leiðarval ásamt hóp- og hraðastjórnun á þessum ferðadögum. Hópurinn tjaldaði við skálann og nýtti sér frábæra aðstöðu sem þar var til að hita vatn, borða og funda innandyra.

Daginn eftir var farið yfir tæknilegri atriði í vetrarferðamennsku s.s. hvernig á að ganga í línu þegar ferðast er um á snjóhuldum jöklum, mismunandi gerðir snjóakkera, ísaxarbremsu og göngutækni í snjó. Hóparnir völdu sér landslag í fjalllendi nærri skálanum til að æfa þessi atriði, en þennan dag eins og aðra var hópnum skipt upp í fjóra minni hópa sem ferðuðust hver í sínu lagi.

Eftir aðra nótt við skálann hélt hópurinn áleiðis heim á leið í átt að upphafsstað. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að ferðast í hring og skíða inn Trölladal og koma niður á Grenivík rétt austan Kaldbaks en þar sem færið var mjög hart og ísað tók hópurinn ákvörðun um að fara frekar sömu leið til baka. Það er eitt af því sem áhersla er lögð á að kenna í Fjallamennskunámi FAS, að breyta skipulagi þegar aðstæður kalla á slíkt og taka til greina vægi nýrra upplýsinga sem gætu stangast á við fyrri plön. Hópurinn tjaldaði fjórðu nóttina um þremur kílómetrum frá bílunum og gerði góða tilraun til að grafa snjóhús inn í bakka sem skafið hafði í, en ekki var nægileg snjódýpt til að það gengi vel eftir. Á síðasta og fimmta degi ferðarinnar skíðaði hópurinn niður á veg með púlkurnar í eftirdragi, sem er ákveðin áskorun á gönguskíðum. Ferðin endaði svo í sundlauginni á Grenivík með dásamlegt útsýni yfir Kaldbak og fjalllendið sem hópurinn hafði ferðast um.

Við þökkum Ferðafélaginu Fjörðungi fyrir góðar móttökur og stuðning og einnig Sundlauginni á Grenivík sem opnaði snemma til að hleypa ferðalöngum í bað.

Kennarar í áfanganum voru Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Michael Robert Walker, Daníel William Saulite og Ólafur Þór Kristinsson.

Aðrar fréttir

Hájöklaferð í fjallanáminu

Hájöklaferð í fjallanáminu

Þann 21. apríl lagði grunnnámshópur fjallanámsins af stað í leiðangur upp á Hrútsfjallstinda. Nemendur voru fimmtán talsins auk þriggja kennara  og var veðurspá með besta móti og stóð til að gista upp frá í þrjár nætur. Það þýddi að bakpokar voru þungir en samt sem...

Umhverfisdagur Nýheima

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli...

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...