Framhald í Fjallaskíðamennsku FAS

03.apr.2024

Þá var komið að síðasta fjallaskíðanámskeiði vetrarins. Framhaldsnemar héldu enn á ný norður í land til þess að auka færni sína á fjallaskíðum. Hópurinn hittist í bakaríi á Akureyri þar sem morgunfundur var haldinn að venju og farið var yfir búnaðinn. Í þetta sinn var förinni heitið á Flateyjarskaga þar sem gist yrði í skálanum að Gili í tvær nætur. Pokinn yrði því aðeins þyngri en venjulega og gangan þangað inn eftir ekki stutt. Eftir morgunfund var haldið að bílastæðinu við Kaldbak. Þaðan gekk hópurinn upp á topp á mettíma í litlu skyggni en annars fallegu veðri. Þegar upp var komið þurfti að ákveða niðurleið en þar sem skyggni var lítið var ákveðið að skíða beinustu leið niður í Trölladal og þvera flatan og langan dalinn niður að skálanum sem tók sinn tíma í allri lausamjöllinni. Skálinn tók loks vel á móti hópnum, vel búinn og flottur og því hófst strax vinna að kveikja á hitanum, bræða vatn og elda. Flottur dagur, en langur!

Á degi tvö var veðrið eins og best verður á kosið. Ákveðið var að skíða beint upp til vesturs frá skálanum í brekkurnar þar undir Fossvaðsskálarhnjúki. Sól og logn og útsýni til allra átta og dásamlegt skíðafæri. Verðskuldað eftir brasið daginn áður.

Veðurspáin fyrir næsta dag var ekki góð, hvöss norðaustanátt og él en niðurstaðan var sú að dagurinn yrði hin fínasta rötunaræfing í krefjandi skilyrðum. Eftir aðra nótt í Gili vaknaði hópurinn í lélegu skyggni og éljagangi, en þó var veðrið nógu gott til að vinna með og vindurinn í bakið. Hópurinn tók sig til og gekk af stað. Dagurinn gekk vel fyrir sig og fengu nemendur góða rötunar- og áttavitaæfingu út úr deginum sem kemur sér vel fyrir leiðangursnámskeið vorsins á jöklinum stóra. Gengið var upp í skarðið neðan Kaldbaks og skíðað niður meðfram gilinu við upphaf gönguleiðar.

Síðasti námskeiðsdagur átti að vera toppadagur á Tröllaskaga en þar sem veðurspáin var ekki með okkur í liði og komin svolítil þreyta í hópinn var ákveðið að nota morguninn í börubjörgunaræfingu og akkerisæfingar með skíði og sig á skíðum. Því næst var námskeiðið klárað að venju á kaffihúsi Bakkabræðra á Dalvík.

Nemendur voru mjög áhugasamir og duglegir á námskeiðinu. Það var ekki mikið kennsluefni og námskeiðið snerist að mestu leyti um að auka færni þeirra enn frekar á fjallaskíðum, mat á aðstæðum, leiðarval og þvíumlíkt. Þau stóðu sig vel í þeirri vinnu og það var aukin áskorun að gista í skála með þyngri fjallaskíðapoka.

Kennarar á námskeiðinu voru Erla Guðný Helgadóttir (sem skrifar fréttina) og Ívar Finnbogason.

Aðrar fréttir

Útskriftarefni dimmitera

Útskriftarefni dimmitera

Það má segja að allt hafi verið á hvolfi í FAS í morgun. Ástæðan er sú að væntanleg útskriftarefni ákváðu að breyta hefðbundinni uppröðun í rýmum skólans og laga þar aðeins til. Þar var hugmyndflugið látið ráða og ekki verið að velta mikið hönnun innandyra fyrir sér....

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS fer fram laugardaginn 25. maí í Nýheimum. Athöfnin hefst að þessu sinni klukkan 12:30. Það verða útskrifaðir stúdentar og einnig nemendur úr fjallamennskunámi FAS. Allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir og við vonumst til að sjá sem...

Nýtt nemendaráð kynnt

Nýtt nemendaráð kynnt

Það er heldur betur farið að styttast í yfirstandandi skólaári og þá er ekki seinna að vænna en að fara að huga að næsta skólaári. Undanfarin ár hefur nemendaráð verið kynnt í lok skólaárs. Að þessu sinni kom eitt framboð og það því sjálfkjörið. Það eru þær Helga...