Fókus á álftatalningu

20.mar.2024

Í dag var komið að árlegri ferð upp í Lón en það er eitt af vöktunarverkefnum í umhverfis- og auðlindafræði í FAS að fylgjast með álftum. Aðaltilgangurinn að telja álftir á Lónsfirði en við komum líka við á urðunarstaðnum í Lóni og fengum að sjá og fræðast um úrgangsmál í sveitarfélaginu. Xiaoling Yu umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins tók á móti okkur á urðunarstaðnum og sagði okkur frá svæðinu. Allt rusl sem ekki er hægt að endurvinna er sett í urðunargryfjuna og einnig lífrænn úrgangur. Það var nokkuð ljóst þegar við gengum um svæðið að við sem samfélag getum staðið okkur töluvert betur í því að flokka. Við sáum töluvert af alls kyns plasti, pappa og jafnvel járnadrasli á svæðinu en þetta rusl hefði auðveldlega mátt flokka.

Eftir heimsóknina á urðunarstaðinn var keyrt sem leið liggur að Hvalnesi en þar er fyrsti talningastaðurinn. Að þessu sinni var það Binni frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands sem fór fyrir hópnum. Við Hvalnes sáust engar álftir en í fjarska mátti sjá nokkuð af æðarfugli. Venjulega hefur verið töluvert af álft á þessu svæði. Binni er með þá kenningu að langvarandi frost í fyrravetur hafi farið illa með gróður þegar þessi hluti fjarðarins var frosinn mánuðum saman og hann sé ekki búinn að ná sér á strik aftur. Næsta stopp var við útsýnispallinn og þar voru taldar um 600 álftir en einnig þar var töluvert af æðarfugli. Þriðji og síðasti talningastaðurinn er svo við afleggjarann að Svínhólum og þar var mest af fugli talið. Alls voru taldar tæplega 2000 álftir í dag en að sögn Binna streyma fuglarnir nú til landsins þessa dagana svo það er líklegt að álftunum muni fjölga á firðinum á næstunni.

Ferðin í dag gekk ljómandi vel, fókusinn var á fuglatalninguna og það vildi svo skemmtilega til að talningafólkið eru stelpurnar okkar í Fókus. Næstu daga munu stelpurnar vinna að skýrslu um ferðina.

Aðrar fréttir

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...

Á leið til Noregs

Á leið til Noregs

Við höfum áður sagt frá nemendaskiptaverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra en það verkefni hófst síðastliðið haust. Þetta er tveggja ára verkefni undir merkjum Nordplus og þátttökulöndin eru Finnland, Noregur og Ísland. Í verkefninu er gert...

Vetrarferðamennska

Vetrarferðamennska

Vetrarferðamennskuáfanginn í fjallamennskunáminu hófst með vinnustofu í Reykjavík þar sem nemendur fóru yfir leiðaval, hvernig á að ferðast án ummerkja og notkun á viðleigubúnaði í vetraraðstæðum. Daginn eftir var förinni heitir norður í fjögurra nátta tjaldferðalag...